5.4.2009

Sunnudagur, 05. 04. 09.

Ég skrifaði í dag pistil hér á síðuna um heiður alþingis og heiður Íslands. Ríkisstjórnin vegur að heiðri alþingis með flausturslegum tillögum um breytingu á stjórnarskránni, þar sem vald alþingis er stórskert. Ríkisstjórnin nýtti ekki leiðtogafund NATO í Strassborg/Kehl til að mótmæla ákvörðun Gordons Browns, forsætisráðherra Breta, um að beita Íslendinga hryðjuverkalögum. Í stað mótmæla var Össur Skarphéðinsson, fulltrúi ríkisstjórnarinnar á NATO-fundinum, að eigin sögn með „kurteisishjal“ við  Gordon Brown.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði í opinberri ræðu um afvopnunarmál í Prag í morgun, að refsa yrði N-Kóreu fyrir að senda langdræga eldflaug upp í geiminn skömmu fyrir ræðuna [eldflauginn brotnaði og féll til jarðar]. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna var kallað til fundar vegna málsins en Obama sagði það ekki nægja, meira yrði að gera gegn þeim, sem brytu reglur á þennan veg.

Anders Fogh Rasmussen sagði af sér embætti forsætisráðherra Danmerkur, eftir að hafa verið valinn til að gegna stöðu framkvæmdastjóra NATO. Augljóst var, að hann fengi stöðuna, eftir að hann kynnti í síðustu viku, að hann sæktist eftir henni. Tyrkir drógu stuðning sinn við Fogh eins lengi og þeim var fært. Þetta er nefnt „posturing“ á ensku, það er setja sig í stellingar. Forsætisráðherra sækir ekki um starf opinberlega, án þess að vera viss um að fá það.

Barack Obama flutti margar ræður í Evrópuferð sinni. Álitsgjafar í Bandaríkjunum segja, að forsetinn og eiginkona hans Michelle hafi greinilega náð til evrópsks almennings. Á hinn bóginn hafi Obama ekki tekist að ná því fram á G20 leiðtogafundinum um fjármálakrísuna, sem hann ætlaði.

Vegna umræðna um Borgarnesræðu, Kaupþingsmenn, Davíð og fleira benti glöggur lesandi síðu minnar mér á að endurbirta þennan pistil http://www.bjorn.is/pistlar/nr/2606?CacheRefresh=1