2.4.2009

Fimmtudagur, 02. 04. 09.

Þingfundur hófst klukkan 11.00 á óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra. Hálftíma síðar skyldu hefjast umræður um breytingar á stjórnarskránni. Dagskrá þingsins var hins vegar þannig úr garði gerð, að við sjálfstæðismenn töldum brýnna að mál eins og nýtt álver við Helguvík yrði rætt á undan stjórnarskármálinu, sem snertir á engan hátt þann vanda, sem við er að glíma í þjóðfélaginu. Lögðum við hart að Guðbjarti Hannessyni, forseta alþingis, að beita sér fyrir samkomulagi um dagskrána með því að gera hlé á fundi og hitta þingflokksformenn að máli. Guðbjartur varð ekki við ósk okkar og var því rætt um fundarstjórn hans fram að hádegishléi. Því miður verður að segja þá sögu eins og hún er, að undir forsæti Guðbjarts eru mikil lauastök á stjórn þingfunda og ákvörðunum um dagskrá og í raun er engu líkara, en hann sitji og standi eins og ríkisstjórnin vill án tillits til þess, sem best er og skynsamlegast miðað við eðlilega framvindu þingmála á lokaspretti þingstarfa.

Umræður um stjórnarskrármálið hófust rúmlega 14.30 og að lokinni framsöguræðu Valgerðar Sverrisdóttur, formanns sérnefndar um stjórnarskrármál, fyrir hönd meirihluta sérnefndarinnar talaði ég í 60 mínútur sem framsögumaður minnihlutans og mun ég birta ræðu mína hér á síðunni, þegar ræðuritun þingsins sendir hana frá sér.

Ég átti ekki nægilega sterk orð til að lýsa andúð minni á þeirri ætlan meirihlutans að svipta alþingi frumkvæðisvaldi við breytingu á stjórnarskránni. Taldi ég ákvörðun um þetta jafngilda broti á drengskaparheiti þingmanna um hollustu við stjórnarskrána.

Þau boð berast frá Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að hún sjái enga ástæðu til að taka þetta mál af dagskrá, þótt nú séu 26 á mælendaskrá og hver hafi heimild til að tala í 40 mínútur í fyrri umferð umræðunnar. Þvermóðska ráðherrans er í raun óskiljanleg eins og viljinn til að rjúfa 50 ára hefð um, að samstaða sé milli stjórnmálaafla um breytingar á stjórnarskránni. Öllum venjulegum mönnum hlýtur að vera erfitt að skilja, hvað kallar á þessar breytingu á stjórnarskránni núna. Ástæðan er þó einföld: Það er verið að kaupa Framsóknarflokkinn til að verja ríkisstjórnina vantrausti.  Málið tengist ekki bankahruninu á nokkurn veg.