30.4.2009

Fimmtudagur, 30. 04. 09.

Hið einkennilega við stjórnarmyndunina núna er, að eftir því sem hún dregst á langinn, þeim mun meiri tíma þarf til að ræða málin. Fyrst var talið að vikan mundi duga, nú segir Jóhanna Sigurðardóttir í dag, að kannski dugi næsta vika ekki til að komast til botns í málum. Öllum spurningum er svarað með hálfkveðnum vísum eða innantómum frösum, sem gefa til kynna, að ekkert sé handfast í samræðum flokkanna.

Í áranna rás hefur DV verið með mig á heilanum og jagast í mér út af stóru og smáu. Ég sé á vefsíðunni amx.is, að þessu er haldið áfram á dv.is, þótt ég sé hættur sem dóms- og kirkjumálaráðherra. Nú er veist að mér fyrir, að einhver maður fékk gjafsókn. Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur ekki afskipti af niðurstöðum gjafsóknarnefndar. Hér ríður vitleysan hjá DV  ekki við einteyming, því að maðurinn er að sækja bætur vegna varðhalds, sem hann telur hafa verið ólögmætt. Bæði samkvæmt gömlu lögunum um meðferð opinberra mála og nýju lögunum um meðferð sakamála er sérstakt ákvæði um, að maður skuli fá gjafsókn til slíks málarekstrar í héraði. Á amx.is er spurt, hvort þessi skrif DV samrýmist siðareglum blaðamanna. Mér finnst ekki spurt að ástæðulausu.

Í dag var ég á Hrafnaþingi hjá Ingva Hrafni Jónssyni á sjónvarpsstöðinni ÍNN og Óli Björn Kárason, ritstjóri og nýkjörinn varaþingmaður, var einnig í þættum, þar sem Ingvi Hrafn vildi, að við brytum úrslit kosninganna til mergjar með vísan til Sjálfstæðisflokksins.