26.4.2009

Sunnudagur, 26. 04. 09.

Veðrið var blítt og fallegt í Fljótshlíðinni í morgun og tún tekun að grænka. Ég skrifaði pistil að loknum kosningum og setti hér á síðuna.

Bjarni Benediktsson tekur ósigri Sjálfstæðisflokksins réttum tökum. Ég er sammála því mati hans, að verið sé að einfalda útkomu flokksins mikið með því að kenna fylgistapið við afstöðuna í Evrópumálum. Sú skýring líkist helst afsökun þeirra, sem vógu að flokknum undir merkjum sammala.is. Þá er skrýtið, að Kristján Vigfússon, Evrópufræðingur Háskólans í Reykjavík, skuli stíga á stokk sem álitsgjafi og segja, að líklega verði þrennar kosningar árið 2010, þar af tvennar vegna aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Við hvaða rannsóknir styðst þessi niðurstaða?

Ég tek undir orð Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri-grænna, í viðræðum flokksforingja í ríkissjónvarpinu í kvöld, að elíta fjölmiðlamanna, álitsgjafa og háskólamanna haldi lífi í umræðum um Evrópusambandsaðild fyrir og eftir þessar kosningar. Málið hafi ekki eins víðtæka skírskotun og þessi elíta vilji vera láta. Önnur mál séu brýnni.

Augljóst var á ummælum Jóhönnu Sigurðardóttur, formanns Samfylkingar, í sjónvarpsumræðunum, að henni leið ekkert vel með aðildarmálið í fanginu sem, að því er virtist, ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi gagnvart Steingrími J., en þau Jóhanna sátu á þriggja tíma fundi í dag og gaf Jóhanna til kynna, að þar hefði verið stál í stál, þegar aðild að ESB bar á góma.

Samfylkingin gaf kosningaloforð í Evrópumálum, sem hún getur ekki efnt. Jóhanna sagði fyrir kosningar, að það mundi ráðast af fylgi Samfylkingarinnar, hvort þetta óskamál hennar kæmist í höfn. Fylgið þyrfti að verða mikið. Niðurstaðan varð sú, að fylgi flokksins er nokkru minna nú en í kosningunum 2003. Sé rétt, að fjöldi fólks, sem annars hefði stutt Sjálfstæðisflokkinn, hafi gengið til liðs við Samfylkinguna vegna Evrópusambandsins, hvers vegna er fylgi fylkingarinnar þá ekki meira? Hvað flúðu hana margir vegna ESB-málsins?