Laugardagur, 04. 04. 09.
Þingfundur hélt áfram í dag og var einkum rætt um stjórnarskrármál að tilskipun Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Hún heldur þingstörfum í gislingu með kröfunni um, að stjórnarskármálið sé á dagskrá.
Ég var ekki á þingi heldur lagði síðustu hönd á ræðu, sem ég flutti klukkan 14.00, þegar þess var minnst á málþingi Samtaka um vestræna samvinnu (SVS) og Varðbergs, að 60 ár eru liðin, frá því að Atlantshafsbandalagið (NATO) var stofnað. Auk fulltrúa Framsóknarflokks, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og utanríkisráðuneytis sagði Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður, frá skjalasafni föður míns og broti af því, sem það hefur að geyma um aðild Íslands að NATO. Þá var Guðmundur H. Garðarsson, fyrrv. alþingismaður, gerður að heiðursfélaga Varðbergs.
Í dag var sagt frá skýrslu úr breska þinginu, þar sem nefnd hefur kannað áhrif íslenska bankahrunsins í Bretlandi og meðal annars komist að þeirri niðurstöðu, að Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, geti ekki vísað til símtals við Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, til skýringar á ákvörðun um að beita hryðjuverkalögum gegn banka Kaupþings í Bretlandi. Með því fellur enn ein ásökun gegn ráðherra Sjálfstæðisflokksins á síðustu mánuðum.
Því meiri upplýsingar. sem birtast, þeim mun erfiðara er að skilja ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, og samstarfsmanna hennar um að leggja til hliðar allar kröfur þess efnis, að stefna bresku ríkisstjórninni og kalla hana fyrir dómstóla til að verja ákvörðun sína. Ingibjörg Sólrún vildi reka málið á pólitískum forsendum, hún hafnaði því, að látið yrði á lögfræðileg sjónarmið reyna.
Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, situr nú á þingi fyrir Samfylkingu sem varaþingmaður. Hún var aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar og sagði mikils virði, að þingnefndir gætu kynnt sér mál og lét eins og það gæti komið í stað þess, að Íslendingar héldu lögmætum rétti sínum gegn Bretum til haga.
Í fréttum sjónvarps ríkisins var sagt frá því, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefði hitt Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, á leiðtogafundi NATO í Strassborg en milli þeirra hefði aðeins fallið „kurteisishjal“ - er það í samræmi við annað, þegar litið er til hagsmunagæslu ráðherra Samfylkingarinnar gagnvart Bretum.