3.4.2009

Föstudagur, 03. 04. 09.

Umræður um stjórnarskrármálið héldu áfram á alþingi í dag, þar sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, vill ekki umræður um önnur mál á dagskrá þingsins. Er með ólíkindum, að Guðbjartur Hannesson, forseti alþingis, sýni það ósjálfstæði, sem birtist í stjórn hans á fundum þingsins. Hann hefur beinlínis viðurkennt, að eiga þar ekki síðasta orð heldur einhverjir aðrir og síðan hafnar hann öllum óskum um samráð og samvinnu. Er þetta þeim mun einkennilegra fyrir þá sök, að frumvarpið, sem Jóhanna vill hafa sem forgangsmál, snýst um að svipta alþingi stjórnarskrárvaldi, stíga til hliðar fyrir annað þing.

Í ræðu í dag las ég fyrir þingmenn úr forystugrein eftir ritstjóra Tímarits lögfræðinga, þar sem varað er við því, að stjórnmálamenn og þá sérstaklega þingmenn gangi fram af fyrirhyggjuleysi við lagasetningu. Orðin eru bein viðvörun til þingmanna og þá ekki síst, þegar verið er með flausturslegum hætti að fjalla um breytingar á sjálfri stjórnarskránni. Ritstjórinn, sem ritar þessi afdráttarlausu viðvörunarorð, er Róbert R. Spanó, sem nú er starfandi umboðsmaður alþingis.

Eftir að ég hafði lesið þessi viðvörunarorð Róberts, lagði Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, til við forseta alþingis, að umboðsmaður alþingis yrði kallaður til fundar við þá, sem bera ábyrgð á hinni makalausu tillögu um breytingu á stjórnarskránni, til að benda þeim á, hvernig staðið skuli að vandaðri málsmeðferð.

Áður en ég tók til máls var vakin athygli á því, að enginn flutningsmanna frumvarpsins um breytingu á stjórnarskránni var í þinghúsinu og var mælst til þess, að þeir yrðu við umræðuna. Þá kom í ljós, að þrír þeirra voru að búa sig undir sjónvarpsviðræður forystumanna flokkanna. Forseti úrskurðaði, að ég skyldi tala, þrátt fyrir fjarveru þriggja flutningsmanna frumvarpsins. Þótti mér þar gengið fram af ósanngirni og óskynsemi eins og á við um svo margar ákvarðanir forseta þingsins að fyrirmælum Jóhönnu Sigurðardóttur.