28.4.2009

Þriðjudagur, 28. 04. 09.

Ekki kann góðri lukku að stýra við stjórnarmyndunarviðræður að setja niður viðræðuhópa um hitt og þetta og hefja síðan ferli, þar sem þeir skila af sér til flokksforingja, sem síðan taka málið upp í þingflokkum og skjóta málum svo aftur til viðræðuhópsins og úr verður einhver moðsuða, sem á að sætta ósættanleg sjónarmið. Af vinarþelinu milli Jóhönnu og Steingríms J. fyrir kosningar hefði að óreyndu mátt ætla, að þau tækju loksins fyrir alvöru að leysa vanda heimila og fyrirtækja eftir kosningar, orðin ein með meirihluta á þingi og enga framsóknarmenn til að þvælast fyrir sem yfirlesara frumvarpa og tillagna. Nei, þá hefst þref um Evrópumál og breytingar á skipulagi stjórnarráðsins.

Í Morgunblaðinu í morgun birtist yfirlætislaus grein eftir 55 MBA-nemendur við Háskólann í Reykjavík, sem geymir greiningu á leiðum við gjaldmiðilsbreytingu hér landi, greiningu, sem er laus við allt Evrópusambandssuðið og fordómana. Mér þótti gott, að nemendurnir birtu þessa greiningu í Morgunblaðinu, þótt þeir hefðu átt að vita, að ritstjórn blaðsins víkur jafnan úr vegi til að gera lítið úr skoðunum þeirra, sem leyfa sér að ræða um gjaldmiðilsskipti án þess að ákalla Brusselvaldið og sjálfan Percy Westerlund sér til hjálpar.