24.4.2009 18:26

Föstudagur, 24. 04. 09.

Ég ákvað að gera athugasemd við ósannindi Össurar Skarphéðinssonar á vefsíðunni eyjan.is. Þeir sem skoða athugasemdina hér, ættu einnig að renna yfir ummæli lesenda Eyjunnar og sjá hina botnlausu óvild nafnlausra bloggara. Að stjórnmálaumræður séu á þessu stigi er áhyggjuefni og ég fagna því, að þeir, sem þannig tala eru andstæðingar mínir og Sjálftsæðisflokksins.

Klukkan 09.15. kom utanríkismálanefnd alþingis saman til fundar og sátum við Geir H. Haarde hann fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Fundurinn var haldinn að ósk Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, sem vildi nýta sér heimild frá rannsóknarnefnd bankahrunsis um að forsætisráðuneytisins sýndi nefndinni í trúnaði skjöl um samskipti við Breta af hálfu ráðuneytisins dagana 3. til 6. október 2008. Fundurinn stóð í tæpar tvær klukkustundir. Að honum loknum sagði Siv við blaðamenn:

„Við erum bundin trúnaði um upplýsingarnar sem komu fram en ég vil þó segja að atburðarásin er mun ævintýralegri heldur en ég gat nokkru sinni ímyndað mér. Þannig að maður er hálf sleginn yfir upplýsingunum sem þó komu fram bæði í gögnunum og svo í tali nefndarmanna.

Mér finnst eðlilegt að Jóhanna Sigurðardóttiir upplýsi um þau gögn sem komu fram hér. Þetta var ævintýraleg atburðarás. Mjög sérstök. Ég vil samt ekki dæma neinn. Það er enn orð á móti orði varðandi Icesave ábyrgðirnar. Þannig að málið hefur ekki skýrst neitt sérstaklega eftir þennan fund en atburðarásin er óneitanlega mjög ævintýraleg.“

Ég undrast lýsingu Sivjar á fundinum. Orð hennar segja mér aðeins, að hún hefur myndar sér rangar hugmyndir um, hvað gerðist í samskiptum við Breta á þeim dögum, sem hún nefnir í spurningu sinni 3. til 6. október 2008. Þessa daga var Icesave-málið til dæmis ekki orðið að ágreiningsmáli.

Í gær skrifaði ég umsögn um bókina Sofandi að feigðarósi eftir Ólaf Arnarson og birtist hún á vefsíðunni amx.is. Í bókinni er sagt frá bankahruninu og þar með því, sem gerðist 3. til 6. október. Meðal þess var grunur breskra stjórnvalda um, að Kaupþing banki væri að flytja 1,6 milljarða punda frá banka Kaupþings í Bretlandi, Singer & Friedlander (S&F) til Kaupþings í Reykjavík. Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, hafi hringt í Geir H. Haarde, þegar Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri bankans sátu á fundi hjá Geir. Í bókinni segir:

 „Þeir gátu því strax fullvissað íslenska forsætisráðherrann um að ásakanir Breta væru ekki á rökum reistar og Geir bar orð þeirra til Darlings“

Þá er sagt frá því í bókinni, að Kaupþingi hafi borist bréf um málið frá breska fjármálaeftirlitinu, sem hafi krafist þess, að þessum fjármunum yrði skilað til Bretlands. Segir Ólafur, að Kaupþingsmenn hafi í „ofboði“ hafist handa við rannsókn málsins með aðstoð íslenska og breska fjármálaeftirlitsins. S&F, hinn breski banki, hafi verið einskonar millifærslustöð innan Kaupþings. Hafi Kaupþing í Reykjavík til dæmis þurft fjármögnun frá Deutsche Bank hafi S&F haft þar milligöngu. Á nokkrum dögum hafi Kaupþingsmönnum og fjármálaeftirlitunum tekist að upplýsa málið. Breska eftirlitinu hafi verið „sýnt fram á að þessir fjármagsflutningar voru hluti af eðlilegri fjármögnun Kaupþings en ekki einhliða flutningur á fjármagni,“ segir Ólafur í bók sinni og bætir við:

„Það sést best á því að þegar Hector Sants ræddi við Hreiðar Má á miðvikudeginum 8. október, eftir að S&F hafði verið knúið í greiðslustöðvun, þakkaði hann Hreiðari sérstaklega fyrir heilindi sem hann og starfsfólk bankans hefði sýnt á þessum erfiðu tímum. Það er fráleitt að æðsti yfirmaður breska fjármálaeftirlitsins hefði hrósað Kaupþingsmönnum með þessum hætti ef ekki hefði öllum grunsemdum þá þegar verið eytt.“

Hér lýsir Ólafur lykilatviki í bankahruninu á þeim dögum, sem voru til umræðu í utanríkismálanefns alþingis. Skýring á harkalegri aðför Breta að íslenskum hagsmunum hefur einnig verið sótt til flutnings fjár frá Bretlandi til Íslands. Af þessu tilefni er forvitnilegt að lesa þessa frásögn Ólafs Arnarsonar en augljóst er, að heimildarmenn hans eru úr röðum Kaupþingsmanna og spurning er, hvort þarna sé sögð sagan öll. Líklegt er, að bíða verði skýrslu rannsóknarnefndar alþingis til að sjá heildarmyndina.