27.4.2009

Mánudagur, 27. 04. 09.

Í dag eru nákvæmlega tvö ár liðin frá því að Bjarni Torfason, skurðlæknir, útskrifaði mig eftir lungnaaðgerðina miklu. Síðan hef ég ekki kennt mér meins og gengið til starfa minna hvern dag. Þá bjóst ég ekki við, að komandi tvö ár yrðu jafnviðburðarík í stjórnmálunum og raunin hefur orðið. Aðeins í þessum veikindum mínum varð mér misdægurt allan feril minn sem ráðherra síðan 1995 og raunar allan tímann, sem ég sat á þingi, það er frá 1991.

Eins og við var að búast er ekki nein leið fær sameiginlega fyrir Samfylkingu og vinstri-græna til Brussel. Nú hefur varaformönnum flokkanna, Katrínu Jakobsdóttur og Degi B. Eggertssyni, verið falið að ræða þetta mál málanna, svo að hin eldri Jóhanna og Steingrímur J. geti sest að því að bjarga heimilum og fyrirtækjum - eða ber ekki að skilja þetta svo?

Kannski er það arfleifð frá fundinum í Höfða, að stjórnmálamenn leitast við að kenna ríkisstjórnir við staði - Viðey 1991, Þingvelli 2007 og Norræna húsið (!) 2009. Með síðasta staðarvalinu á að leiða þjóðinni í allan sannleika um, að nú skuli mynduð hér norræn velferðarstjórn. Þarf nokkurn stjórnarsáttamála?