Föstudagur, 17. 04. 09.
Þingfundur hófst klukkan 10.30 en áður höfðum við sjálfstæðismenn hist á þingflokksfundi. Um klukkan 13.00 flutti ég mína síðustu ræðu á þingi og var það fyrir framhaldsnefndaráliti okkar sjálfstæðismanna í sérnefndinni um stjórnarskrármál. Greinilegt var á ræðum, sem fluttar voru, að stjórnarsinnar töldu mig helst hafa staðið gegn því, að sátt næðist um stjórnarskrármálið. Ég sagðist stoltur af því, að hafa komið í veg fyrir, að stjórnarskrárgjafarvald alþingis yrði frá því tekið.
Ég hvarf af þingi 13.50 og bjó mig undir jarðarför Ingólfs Guðbrandssonar, tengdaföður míns, í Hallgrímskirkju kl. 15.00, þar sem séra Jón Dalbú Hróbjartsson jarðsöng en jarðsett var í Fossvogskirkjugarði og klukkan 17.00 var erfidrykkja í súlnasal hótel Sögu.
Ég kom aftur í þinghúsið um klukkan 18.15 en þá hafði verið ákveðið að taka stjórnarskrármálið af dagskrá, enda sá stjórnarliðið, að það kæmist ekki upp með að breyta stjórnarskránni á þennan óvandaða hátt. Þingstörfum lauk og var fundum alþingis frestað fram að kosningum um klukkan 21.00.
Á síðustu klukkustundum þinghaldsins var þröngvað í gegn frumvarpi um að gera kaup á vændi refsiverð. Lögfesting slíkrar refsingar á uppruna í Svíþjóð og hefur breiðst til nokkurra landa, þar sem vinstrimenn hafa náð meirihlutavaldi í þjóðþingum. Markmiðið er sagt vera að berjast gegn mansali. Í sama anda voru hugmyndir stjórnarliða um að breyta lögum á þann veg, að nektardans yrði bannaður. Fallið var frá þeim áformum.
Þá er þingsetu minni lokið. Ég hef kunnað vel við alþingi sem vinnustað. Starfsmenn þingsins eru mjög hæfir og sinna störfum sínum af alúð og metnaði. Mötuneyti þingsins er til mikillar fyrirmyndar.
Síðustu vikur voru árangursríkar á þingi, úr því að okkur sjálfstæðismönnum tókst að hindra framgang stjórnarskrármálsins. Einhugur í okkar röðum í andstöðu við málið var mikill. Guðbjartur Hannesson, forseti alþingis, sagði í útvarpsfréttum, að sigur okkar í málinu væri „áfall“ fyrir ríkisstjórnina og er það orð að sönnu. Framvinda málsins og endalok þess sýna, hve Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á erfitt með að horfast í augu við, að henni tekst ekki að þvinga allt fram, sem hún vill.
Vegna vændislaganna bendi ég á það, sem Gunnlaugur Júlíusson segir um málið á vefsíðu sinni. Það má lesa hér fyrir neðan og er ég sammála þessu viðhorfi:
„Í dag voru samþykkt lög á Alþingi sem banna vændi. Hin svokallaða sænska leið hefur verið tekin í lög hérlendis, þriðja landið í heiminum. Svíþjóð var fyrst og Noregur annað í röðinni. Vændi er stundað í töluverðum mæli bæði í Svíþjóð og Noregi en umfang þess er óráðin stærð hérlendis. Mér finnast þessi lög arfavitlaus enda hefur reynslan sýnt að þau hafa engan vanda leyst í Svíþjóð en vanda skyldi kalla. Sexarbetarne í Svíþjóð, eins og það fólk sem stundar vændi kallar sig, segir að staða þess sé jafnvel verri eftir en áður. Götuvændið hefur mikils til horfið af yfirborðinu en í stað þess er það til staðar innan veggja og er markaðssett á netinu. Vændiskonur eru varnarlausari eftir en áður því eftirlit þeirra hver með annarri á götunum er hörfið. Þetta skiptir hins vegar ekki máli því nú geta sænskar yfirstéttarkonur sagt á alþjóðlegum ráðstefnum að í Svíþjóð sé vændi bannað. Húrra, húrra, húrra, "Vi er bäst i värden". Þetta hef ég eftir Petru Södergren, sænskum feminista sem er mjög gagnrýnin á starfsaðferðir sænsku feministasamtakanna. Þó þessi lög séu vitlaus að mínu mati þá voru lögin sem sektuðu fólkið sem seldi sig enn vitlausari.
Mannsal er hins vegar allt annað. Það er náttúrulega ekkert annað en þrælahald og ber að meðhöndla sem slíkt. Að leggja vændi og mansal að jöfnu er ekkert annað en veruleikafirring. Það gleymist hins vegar ansi oft að það eru fleiri strákar en stelpur á framhaldsskóalaldri sem selja sig. Í umræðunni er hins vegar alltaf talað um að það séu einungis konur sem selji sig. Það passar svo vel inn í heildarmyndina. “