7.4.2009 22:06

Þriðjudagur, 07. 04. 09.

Dagurinn hófst á fundi í utanríkismálanefnd alþingis klukkan 08.00, þar sem Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, fóru yfir skýrslu fjárlaganefndar neðri deildar breska þingsins um hrun íslensku bankanna og áhrif þess á innistæður manna og félaga í Bretlandi.

Í skýrslunni leggja þingmennirnir lykkju á leið sína, til að lýsa yfir því, að Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, hefði farið rangt með, þegar hann túlkaði símtal sitt við Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, á þann veg, að Árni hefði sagt íslensku ríkisstjórnina ætla að hlaupa frá skuldbindingum sínum vegna innistæðutrygginga. Þá telja þeir einnig, að breska ríkisstjórnin hafi gengið fram af of mikilli hörku við að setja Ísland á hryðjuverkalista vegna bankahrunsins.

Mér þóttu lýsingar íslensku ráðherranna á því, sem þeir ætluðu að gera heldur rýr, en að loknum ríkisstjórnarfundi var frá skýrt áformum um að senda Gordon Brown bréf.

Síðdegis héldu umræður um stjórnarskrármálið áfram á þingi og um kvöldið voru eldhúsdagsumræður. Af þeim mátti ráða, að Jóhanna Sigurðardóttir er við sama heygarðshornið í stjórnarskrármálinu og notar það sem girðingu gegn umræðum um öll önnur mál á þinginu. Þá er Guðbjartur Hannesson, forseti alþingis, kominn út í horn við stjórn þingsins eins og endurtekinn flutningur dagskrártillagna sýnir.