6.4.2009

Mánudagur, 06. 04. 09.

Umræður um breytingu á stjórnarskránni héldu áfram á alþingi í dag. Við upphaf þingfundar í morgun fluttum við sjálfstæðismenn dagskrártillögu um, að umræðum um stjórnarskrármálið yrði slegið á frest en þau mál tekin til umræðu, sem snertu hag heimila og fyrirtækja. Stjórnarsinnar mega ekki heyra á slíkt minnst og var tillagan felld, loksins þegar hún var borin upp - en það var gert, eftir að stjórnarsinnar höfðu smalað nægum þingmannafjölda í húsið til að geta fellt tillöguna.

Einkennilegt var að hlusta á Guðbjart Hannesson, forseta alþingis, lýsa afgreiðslu dagskrártillögunnar á þann veg, að í henni hafði falist traustsyfirlýsing á hann sem forseta. Að tillagan var flutt er til marks um, að Guðbjarti mistekst með öllu að halda þannig á stjórn þingsins, að þar ríki nauðsynlegt jafnvægi til þess að mál nái fram að ganga. Er grátbroslegt að hlusta á stjórnarsinna kalla á sátt í stjórnarskrármálinu en neita síðan að sættast um dagskrá þingsins. Hvernig er unnt að semja við menn um efni stjórnarskrár, þegar þeir geta ekki samið um dagskrá þingsins?

Yfir þessu háttalagi stjórnarmeirihlutans á alþingi svífur illur andi. Jóhanna Sigurðardóttir vill ekki venjulega kosningabaráttu, henni finnst þægilegast að þurfa ekki að fara nema á milli stjórnarráðshússins og þinghússins. Guðbjartur Hannesson stjórnar þinginu á þann veg sem Jóhönnu þóknast. Hún er fyrsti flutningsmaður þessa óhönduglega stjórnarskrárfrumvarps og heimtar afgreiðslu þess, hvað sem tautar og raular.

Guðbjartur Hannesson talaði um stjórnarskrárbreytingarnar á þann veg í kosningasjónvarpi frá norðvesturlandi, að hann áttar sig greinilega ekki á efni þeirra. Hann heldur, að frumvarpið greiði fyrir aðild að Evrópusambandinu! Þvert á móti hefur verið bent á, að ákvæði 1. gr. frumvarpsins sé þess eðlis, að hún brjóti í bága við hugsanlega aðild að Evrópusambandinu.