2.5.2007 20:54

Miðvikudagur, 02. 05. 07.

Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, var spurð um kaffibandalagið svonefnda í Kastljósi í kvöld og hvort hún gæti sest í stjórn undir forystu Steingríms J. svaraði hún: Eigum við ekki að tala um pólitík! Í allan vetur hefur það verið kjarnaatriði í pólitík stjórnarandstöðunnar, að hún hefði stofnað bandalag um nýja ríkisstjórn en þá, sem nú situr. 10 dögum fyrir kosningar telur Ingibjörg Sólrún það ekki umræður um pólitík að ræða kaffibandilagið.

Kaffibandalagið hefur gengið sér til húðar að mati Samfylkingarinnar, úr því að vinstri/græn hafa hlotið meiri styrk meðal kjósenda samkvæmt könnunum en Samfylkingin.

Sjónvarpseinvígi forsetaframbjóðendanna í Frakklandi var í kvöld og fylgdist ég með því á France 2, hljóðið var því miður bilað í upphafi en komst í lag - hvor frambjóðandi talaði í rúmlega 70 mínútur. Margt var rætt á þessum 145 mínútum. Fyrirheit um að blása nýju lífi í atvinnulífið og bæta hag þeirra, sem minna mega sín, settu mikinn svip á umræðurnar. Sarkozy reitti Royal til reiði með því að saka hana um óvandað orðbragð um sig, þegar hann ræddi um skólagöngu fatlaðra.

Sarkozy vill nýta kjarnorku til að framleiða meira rafmagn en Royal er hikandi. Sarkozy vill ekki Tyrkland í Evrópusambandið, Tyrkland sé ekki í Evrópu, Royal segir, að ræða þurfi málið og ekkert gerist nema eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina í Frakklandi, hún var neikvæð í garð aðildar Tyrklands. Sarkozy segir Frakka hafa hafnað stjórnarskrársáttmála ESB, það þurfi ekki að bera málið oftar undir þá. Royal segir, að hún vilji aðra þjóðaratkvæðagreiðslu.

Kunnustu sjónvarpsfréttastjórar Frakka stjórnuðu umræðunum en höfðu sig mjög lítið í frammi og voru ekki að láta ljós sitt skína á neinn hátt. Hér verður ekki felldur dómur um, hvor frambjóðandanna stóð sig betur.