14.5.2007 10:26

Mánudagur, 14. 05. 07.

Morgunblaðið leggst eindregið á þá sveif í leiðara sínum í dag, að ríkisstjórnin eigi að halda áfram, enda hafi hún til þess meirihluta. Forsíðufrétt blaðsins er einnig í þeim anda. Þar má lesa, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi sýnt svo mikinn hroka í samtölum við einhverja sjálfstæðismenn að loknum kosningum, að hafi þeir haft áhuga á að ræða við hana um stjórnarsamstarf, sé hann fokinn út í veður og vind. Hvers vegna halda menn, að vandræðin séu svona mikil í forystu Samfylkingarinnar? Hafa menn gleymt því, hvernig Ingibjörg Sólrún kom fram við samstarfsfólk sitt í R-listanum, eftir að hún ákvað að brjótast til valda í landsmálum?

Norræna módelið, sem vinstri flokkarnir kynntu í kosningabaráttunni, blasir við á forsíðu Fréttablaðsins, þar sem sagt er frá því, að þau Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J. Sigfússon hafi rætt það í gær, að þau mynduðu minnihlutastjórn með hlutleysi eða stuðningi framsóknarmanna. Stundum dettur manni í hug, að fólk sé í vitlausu landi, þegar lesið er um norræna draumóra vinstrisinna. Og nú erum við einnig að upplifa skopmyndastríð hér, að vísu ekki vegna spámannsins Múhameðs, heldur annars, sem teiknaður var með skegg og mótmælaspjald og krefst afsökunar, áður en hann talar við framsóknarmenn.

Framlag Morgunvaktar á rás 1 var að kalla á Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing til að geta sagt það síðan sem fyrstu frétt kl. 08.00, að hér hefðu bæði setið ríkisstjórnir með 32 atkvæði og einnig að þær hefðu talist of veikburða. Allt ræðst þetta af pólitískum vilja, hann var fyrir hendi í viðreisnarstjórninni, en hvorki eftir kosningar 1991 né 1995. Eitt atkvæði tryggir meirihluta - málið er ekki flóknara en það og pólitískur vilji er allt, sem þarf.

Nýr þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 18.00 og var ánægjulegt að hitta samherja í hátíðarskapi. Umboð Geirs H. Haarde er ótvírætt af hálfu þingmanna.

Þegar ég kom út af fundinum vildi fréttamaður sjónvarpsins spyrja mig um útstrikanir, en fréttastofan hefur frá kjördegi flutt fréttir af þeim, þótt Sveinn Sveinsson, formaður kjörstjórnar í Reykjavík suður, segi ekki enn ljóst, hvernig útstrikunum hafi verið háttað. Ég sagðist ekki vita neitt um málið og gæti þess vegna ekki sagt neitt um það. Hitt er einkennilegt, ef fréttamenn hafa betri aðgang að upplýsingum um mál af þessum toga en frambjóðendur sjálfir. Ef þetta væri að gerast á vettvangi stjórnsýslunnar, þættu vinnubrögð af þessum toga ekki til fyrirmyndar.