25.4.1995

Sest í ráðherrastól

Fjölmiðlar höfðu gert því skóna um nokkurt skeið, að til þess kynni að koma, að ég settist í ríkisstjórn. Ljóst var, að Davíð Oddsson hafði hug á breytingum á ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins. Fjölmiðlar sögðu, að líklega viki Ólafur G. Einarsson úr sæti menntamálaráðherra, jafnframt var frá því skýrt, að tekist væri á um það hjá hvorum flokknum embættið lenti.

Þótt undarlegt kunni að virðast blasti málið eins við mér og öðrum, sem lásu blöðin eða hlustuðu á ljósvakamiðla. Ég vissi ekki frekar en aðrir, hverjir yrðu valdir til setu í ríkisstjórn. Þar var ég ekki í neinu framboði heldur beið eftir tillögu forsætisráðherra. Biðin var þó ekki við símann eins og í Bretlandi, þar sem þingmenn þora ekki að hreyfa sig frá símanum við stjórnarmyndun af ótta við, að þá nái forsætisráðherrann ekki í þá til að bjóða þeim embætti í ríkisstjórninni. Hjá okkur eru það þingflokkarnir, sem hafa síðasta orðið, þess vegna er það ekki í síma heldur á fundi í þeim, sem menn vita, hvar þeim er skipað, þegar ríkisstjórn er mynduð.

Innan Sjálfstæðisflokksins ganga mál þannig fyrir sig undir formennsku Davíðs Oddssonar, að hann á einkasamtöl við þingmenn og gerir síðan tillögu á grundvelli þeirra um skipan í ráðherraembætti. Þessi samtöl fóru fram laugardaginn 22. apríl. Var áætlað, að þeim yrði lokið fyrir klukkan 16, þegar flokksráðfundur hófst, en þar var veitt hið endanlega umboð til að mynda stjórn með Framsóknarflokknum. Boðað var til þingflokksfundar klukkan 18 sama dag til að ganga frá ráðherravali. Í lok flokksráðsfundarins var þingflokknum hins vegar tilkynnt, að fundi hans væri frestað til kl. 19.30, þar sem Davíð hefði ekki unnist tími til að ræða við alla þingmennina 24.

Með nokkrum fyrirvara hafði ég þetta kvöld boðið norskum vini mínum, Lars Roar Langslet, á heimili okkar Rutar. Hann er nú menningar- og stjórnmálablaðamaður hjá Aftenposten, en var áður þingmaður Hægri flokksins og mennta- og menningarmálaráðherra. Hitti ég hann fyrst sumarið 1970 og hefur vinátta okkar haldist síðan. Hér var hann í síðustu viku til að taka viðtal við frú Vigdísi Finnbogadóttur forseta Íslands. Voru aðrir góðir vinir einnig í þessu samkvæmi, sem ég gat auðvitað ekki sinnt sem skyldi, úr því að þingflokksfundinum var frestað. Raunar voru góð ráð dýr, þegar enn var frestun á fundinum til klukkan 20.

Rétt rúmlega 20 kom Davíð ofan úr Valhöll, þar sem hann ræddi við síðustuþingmennina. Fundurinn var settur og Davíð las tillögu sína. Þá fyrst heyrði ég, að hann hefði valið mig í embætti menntamálaráðherra. Ekki var gerð tillaga um breytingu á niðurstöðu Davíðs. Fundurinn stóð í um það bil 30 mínútur og fyrir utan biðu sjónvarps- og útvarpsmenn, fyrir tilstilli þeirra sá Rut kona mín, Bjarni Benedikt sonur okkar og gestirnir góðu, hvernig mál fóru. Sigríður dóttir okkar er nýlega farin til starfa fyrir Atlanta sem flugfreyja í Nígeríu og vildi svo skemmtilega til, að hún náði einmitt þetta kvöld í fyrsta sinn símasambandi við okkur, síðan hún fór fyrir tveimur vikum.

Eftir þessi þáttaskil hefur verið í mörgu að snúast. Margar hlýjar kveðjur hafa borist, meðal annars hér á netinu. Síðdegis á sunnudag hittumst við Ólafur G. Einarsson í ráðuneytinu og aftur morguninn eftir, en fyrir hádegi á mánudeginum heilsaði ég starfsfólki ráðuneytisins í húsakynnum þess í gamla Sambandshúsinu við Sölvhólsgötu. Er ráðuneytið allt þar undir einu þaki og hefur næstum húsið í heild fyrir sig.