11.5.2007 21:20

Föstudagur, 11. 05. 07.

Lokaumræðuþáttur formanna stjórnmálaflokkanna var í sjónvarpinu í kvöld. Ég er þeirrar skoðunar, að formenn stjórnarflokkanna hafi borið herðar yfir aðra í þættinum, þar sem stefna þeirra var skýr og ótvíræð. Umræðurnar leiddu í ljós, að stjórnarandstaðan lifir enn í voninni um kaffibandalagið, þótt Steingrímur J. biðlaði ekki jafnsterkt til Samfylkingarinnar og hann gerði á Stöð 2 sl. miðvikudag.

 

Þeir Ómar Ragnarsson og Steingrímur J. Sigfússon tóku í upphafi þáttarins upp hanskann fyrir Jóhannes í Bónus vegna auglýsingar hans í dagblöðunum í dag um að fólk í mínu kjördæmi ætti að strika úr nafn mitt af listanum á kjördag. Ómar sagðist skilja Jóhannes, af því að hann sæti sjálfur undir kæru frá framsóknarmanni á Austurlandi fyrir ólögmæt afnot af landi fyrir austan. Steingrímur J. gaf þá skýringu, að Baugsmálið hefði verið lengi fyrir dómstólunum. Geir H. Haarde lýsti gagnrýni á framtak Jóhannesar, aðrir leiddu málið hjá sér.

 

Mér kom afstaða Steingríms J. á óvart, því að vinstrisinnar láta jafnan eins og þeir telji ámælisvert, að auðmenn séu að nota fjármagn sitt til pólitískra afskipta. Tvískinnungur þeirra í því efni er þó kunnur eins og betlibréfið, sem vinstri/græn rituðu til Alcan, eftir að hafa ráðist á Stöð 2 fyrir að fá kostun frá Alcan vegna Kryddsíldarinnar á gamlársdag. Þá má ekki gleyma því, að Jóhannes er búsettur í kjördæmi Steingríms J.

 

Þegar við sjálfstæðismenn vorum að flytja tillögur um úrbætur í málefnum Reykjavíkurborgar á tímum R-listans, spratt Ingibjörg Sólrún alltaf á fætur og spurði: Hvað kostar þetta, hvernig ætlið þið að fjármagna það? Nú situr hún og brosir vandræðalega, þegar spurt er, hvernig hún ætlar að fjármagna kosningaloforð Samfylkingarinnar og svarar næstum því eins og Kristrún Heimisdóttir, þegar hún sagði með þjósti í Kastljósi, að hún hefði ekki hugmynd um, hvað kosningaloforð Samfylkingarinnar kostuðu, samt væru þau góð.

 

Þegar Ómar var spurður, hvernig þeir félagar í flokki hans ætluðu að kosta útgjöldin, sem þeir boða, svaraði hann, að Japanir væru með sendiráð á 2. hæð við Suðurlandsbraut en við með hús í Tókýó – þarna mætti spara. Þetta svar Ómars á auðvitað að lesa í ljósi auglýsingar hans um, að hann sé ekkert að grínast.

 

Steingrímur J. sagði ekki sanngjarnt, að spyrja sig um það, hvort hann ætlaði að taka upp eignaskatt að nýju! Við sem höfum hlýtt á vinstri/græn á þinginu vitum, að þau sakna hvers skatts, sem hverfur, og harma hverja lækkun, sem verður á þeim sköttum, sem eftir lifa.

 

 

Ingibjörg Sólrún sagði, að ekki væri unnt að segja neitt af eða á um stóriðju og hélt áfram að slá úr og í, þegar hún var spurð um álver á Húsavík. Minnumst þess, að atkvæði Ingibjargar Sólrúnar réð úrslitum í borgarstjórn Reykjavíkur um að ráðist yrði í Kárahnjúkavirkjun. Steingrímur J. heldur áfram að tala um bjórverksmiðju við Eyjafjörð sem fordæmi um nýsköpun á landsbyggðinni, en á sínum tíma var hann á móti því, að leyfa sölu á bjór hér á landi. Hvenær ætli hann sjái ál í sama ljósi og bjór? Og gildi framleiðslu þess hér á landi?

Geir rifjaði upp sögu eftirlaunamálsins og ítrekaði, að hann væri til þess búinn að leita eftir samkomulagi um breytingar. Halldór Ásgrímsson hefði leitað eftir samkomulagi um breytingar en það hefði ekki tekist. Ingibjörg Sólrún fór þá í þær stellingar að segja, að í málinu snerist spurningin um það, hvað væri betra en ekkert!

Af þessum umræðuþætti er ekki unnt að draga aðra ályktun en þá, að málstaður og málflutningur stjórnarflokkanna sé skýrari og betur rökstuddur en stjórnarandstöðunnar, sem getur ekki svarað, hvernig hún ætlar að standa undir hækkun á opinberum útgjöldum og talar um hugsanalestur, þegar vakið er máls á því, að fyrir henni vaki að hækka skatta.

Kosningnabarátta Framsóknarflokksins hefur markvisst byggst á því síðustu daga að minna á góðan árangur ríkisstjórnarinnar. Af henni verður ekki annað ráðið en flokkurinn stefni einarður að því að eiga áfram samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.