12.5.2007 12:42

Laugardagur, 12. 05. 07.

Kjördagur - veitið Sjálfstæðisflokknum brautargengi - XD!

Við Rut fórum í Hlíðaskólann að kjósa fyrir klukkan 10. 00 í morgun og skömmu síðar komu þeir Þorgeir Ástvaldsson og Kristófer Helgason frá Bylgjunni í heimsókn og ræddu við mig í tilefni kjördags og kosninga.

Mestu skiptir, að sem flestir kjósendur nýti sér rétt sinn til að kjósa og hafi þannig áhrif á, hvernig stjórn landsins verður háttað næstu fjögur ár. Línur hafa verið að skýrast síðustu daga milli stjórnar og stjórnarandstöðu og á kjördag eru mál kynnt þannig í fjölmiðlum, að valið sé á milli stjórnar með þátttöku Sjálfstæðisflokksins eða vinstri stjórn.

Af þeim málum, sem rædd hafa verið í kosningabaráttunni, vekur mikla undrun, að rifist skuli um, hvort skattar hafi verið lækkaðir hér eða ekki. Er raunar óskiljanlegt, hvernig unnt er að deila um þetta, þegar litið er ákvarðanir, sem hafa verið teknar í skattamálum. Hitt þykir mér einnig skrýtið að heyra stjórnarandstöðuna hneykslast á svonefndum eftirlaunalögum - ráðist var í setningu þeirra að frumkvæði stjórnarandstöðunnar eins og Gunnar I. Bigisson lýsir í grein í Morgunblaðinu í dag. Fjölmiðlamenn hafa spurt um þetta mál, án þess að brjóta það sjálfir til mergjar, til að lýsa á hlutlægan hátt inntaki þess.

Í grein sinni segir Gunnar meðal annars um aðdraganda frumvarpsins og síðar laganna um eftirlaun:

„Upphaf þess að frumvarpið var samið er þetta: Fulltrúar stjórnarandstöðunnar, Guðjón A. Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson komu til forsætisráðherra og hreyfðu þessu máli fyrstir manna. Í kjölfarið var ákveðið að allir flokkar á þingi flyttu frumvarpið. Frumvarpið þýddi í fyrsta lagi að lífeyriskjör þingmanna voru lækkuð um 1%. Í öðru lagi voru eftirlaun ráðherra og hæstaréttardómara rýmkuð. Eftir ákveðinn starfstíma gátu þeir tekið eftirlaun þótt þeir hyrfu til annarra starfa.

Það hefur vakið athygli mína að stjórnarandstaðan vill ekkert tala um þetta. Ekki heldur rannsóknarblaðamenn Íslands, Kompás, DV og fleiri. Menn hljóta að spyrja sig hvaða menn það eru sem njóta þessa réttar, lögum samkvæmt. Ætli hakan sé ekki skyld skegginu? Sjálfur veit ég um nokkra menn sem njóta hlunninda sem lögin færðu þeim og mun ég að sjálfsögðu ekki nafngreina þá. Ég get þó sagt að þeir eru ekki sjálfstæðismenn.“