16.5.2007 17:02

Miðvikudagur, 16. 05. 07.

Í hádegisfréttum heyrði ég, að 2514 hefðu strikað mig út á kjördag, eða um 18% kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður og ég félli niður um eitt sæti - rúm 80% kjósenda flokksins urðu þannig ekki við áskorun Jóhannesar Jónssonar kaupmanns í auglýsingu hans 11. maí. Ég gaf út yfirlýsingu, eftir að fréttin birtist og læt hana nægja sem viðbrögð mín á þessu stigi málsins. Af þeim fjölda töluvbréfa, sem ég hef síðan fengið, dreg ég þá ályktun, að yfirlýsingin hafi verið tímabær og veki fólk til umhugsunar um hvert stefnir.

Þótt ég hafi oft rætt um kvikmyndina Das Leben der Anderen hér á síðuna, hafði ég aðeins séð hana á DVD og þýsku, þar til í dag, að ég brá mér í Háskólabíó og sá hana þar á hvíta tjaldinu og með íslenskum texta. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Einn af kostum myndarinnar er, hve öguð hún er og markviss í allri gerð. Hvergi er farið lengra en nauðsynlegt er til að segja söguna.

Ég missti því af kvöldfréttunum en sé, að Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, verður nú málsvari auglýsingar Jóhannesar Jónssonar kaupmanns, sem sagðist auglýsa í eigin nafni, þótt hann kynni að vísu að njóta afsláttar fyrirtækja sinna, þegar reikningarnir yrðu skrifaðir. Hann sagði einnig í sama viðtali, þegar hann var spurður um viðbrögð við auglýsingunni, að þau hefðu verið 80% á móti 20% - það væru þessi venjulegu 20%, sem alltaf kvarta, mátti skilja á orðum hans. Nú er annað uppi á teningnum með 20% hjá Baugi, eins og heyra má.

Samkvæmt ábendingu leit ég á frétt sjónvarps ríkisins um málið og sé, að fréttastofan er við sama heygarðshornið og vill gera hlut minn sem verstan. Ég er undrandi á því, ef fréttastofan birtir ekki athugasemd mína við frétt hennar frá því í gær, þar sem ranglega var sagt, að auglýsing dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á embættum í Lögbirtingablaðinu hefði verið kveikjan að auglýsingu Jóhannesar Jónssonar gegn mér.