18.5.2007 21:30

Föstudagur, 18. 05. 07.

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman til fundar klukkan 09.30 og gerði Geir H. Haarde honum grein fyrir gangi mála í stjórnarmyndunarviðræðum, áður en hann fór á fund forseta Íslands að Bessastöðum klukkan 11.00, baðst lausnar fyrir ríkisstjórnina og fékk umboð til að mynda nýja stjórn. Hófust viðræður við Samfylkinguna formlega síðdegis.

Í Viðskiptablaðinu í dag birtist langt viðtal Ólafs Teits Guðnasonar við mig, þar sem við ræðum auglýsingar Jóhannesar Jónssonar, afskipti stjórnarformanns Baugs, afstöðu til einstakra stjórnmálaflokka og stöðu mína að loknum kosningum.

Í úttekt sinni á fjölmiðlun síðustu daga segir Ólafur Teitur meðal annars frá því í Viðskiptablaðinu í dag, hvernig Ólafur Ragnar og álitsgjafar hlynntir honum leituðu skýringa á því, að 28 þúsund kjósendur skiluðu auðu í forsetakosningunum 2004. Þá héldu þeir því blákalt en ranglega fram, að áhrifamenn og Morgunblaðið hefðu hvatt fólk til að skila auðu. Nú þegar sagt er, að auglýsing gegn einum frambjóðandi hafi haft áhrif á kjósendur, láta álitsgjafar á borð við Egil Helgason í veðri vaka, að það sé dónaskapur við kjósendur að vekja máls á þessu.

Baugsmiðlar þykir skammaryrði og nú er hið sama uppi á tengingnum um orðið Baugsstjórn. Hvað veldur? Stjórnarformaður Baugs ætti að skrifa svo sem eina skammargrein til að útskýra það.