5.5.2007 18:23

Laugardagur, 05. 05. 07.

Í dag birtist við mig viðtal á Stöð 2, þar sem rætt var um heilsu mína og bata og má sjá það hér.

Nú fyrst er verið að sýna hér þýsku Óskarsverðlaunamyndina Das Leben der Anderen, sem ég hef sagt frá hér á síðunni. Hún hefur verið rækilega kynnt meðal annars með langri grein í Lesbók Morgunblaðsins í dag.

Stöð 2 vakti athygli á því í kvöld, að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, teldi stækkun bjórverksmiðju til marks um blómlegt atvinnulíf við Eyjafjörð en á sínum tíma hefði hann lagst gegn því, að hér mætti kaupa bjór. Bjórinn frá Eyjafirði er hágæðabjór fyrir veitingastaði á Íslandi.

Þá minnti fréttamaður Stöðvar 2 á, að vinstri/græn hefðu bent á Bláa lónið sem dæmi um umhverfisvæna stóriðju, en síðan hefði komið í ljós, að nú yrði lónið talið umhverfisslys.

Þeir gleymdu þó mótmælum Steingríms J. gegn Stöð 2 fyrir að þiggja styrk frá Alcan vegna Kryddsíldarinnar á gamlárskvöld og bréfinu, sem vinstri/græn rituðu síðan Alcan með beiðni um 300 þúsund króna styrk til flokksstarfsins.

Stefnufesta vinstri/grænna nær til þess að vera á móti einkarekstri, móti hlutafélagavæðingu ríkisstofnana, móti vörnum landsins, móti samstarfi við nágrannaþjóðir um öryggismál og á móti því að fjármálafyrirtæki blómstri í landinu, en störfum fjölgaði hjá þeim um 1000 á síðasta ári og var heildarfjöldi starfsmanna fyrirtækjanna 8.300 í lok 2006.

1998 til 2005 fjölgaði starfsmönnum í fjármálageiranum um 28% en fjölgun starfa á almennum vinnumarkaði var um 13% á sama tíma. Hjá fjármálafyrirtækjum er mest um vel menntað hálaunafólk að ræða. Hefðu vinstri/græn ráðið ferð, hefði þetta aldrei orðið. Þá hefði ekki heldur verið ráðist í stórvirkjanir og stóriðju.