7.5.2007 22:55

Mánudagur, 07. 05. 07.

Klukkan 08.00 var ég í Von, húsi SÁA við Efstaleiti, þar sem við qi gong félagar höfum æft síðan síðastliðið haust. Ákváðum við að þakka fyrir okkur með því að veita styrk til ungmennastarfs SÁA og kom það í minn hlut sem formanns Aflsins, félags qi gong iðkenda að afhenda Ara Matthíassyni, framkvæmdastjóra SÁA, styrkinn.

Klukkan 10.30 var ég í Þjóðmenningarhúsinu og ritaði undir samning við Field Aviation í Kanada um kaup á nýrri eftirlitsflugvél fyrir landhelgisgæsluna. Einnig ritaði ég undir árangursstjórnunarsamning við landhelgisgæsluna og erindisbréf forstjóra hennar.

Ég var síðan í hádegisviðtali á Stöð 2 um málefni landhelgisgæslunnar.

Ég hef velt því fyrir mér, hvort aðrar reglur sé í gildi á ríkisútvarpinu en á Stöð 2, þegar kemur að samtölum við stjórnmálamenn fyrir kosningarnar, að fréttamenn RÚV líti á allt, sem við erum að kynna í ljósi kosninganna. Fréttamaður sjónvarpsins lét að minnsta kosti í það skína í frásögn sinni af undirritun samningsins um eftirlitsflugvélina, að hún tengdist kosningunum, án þess að hann hefði nokkuð fyrir sér í því efni annað en, að kosið verður 12. maí.

Margrét Marteinsdóttir, fréttamaður á sjónvarpinu, hringdi í mig til að grennslast fyrir um það, hvort ég teldi Lögbirtingarblaðið nægilega góðan auglýsingamiðil fyrir opinber störf. Ég sagði svo vera, enda væri þess getið í lögum, að embætti ætti að auglýsa þar og hefði það oft verið gert á embættisferli mínum og skilað árangri. Blaðið væri gefið út af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og útbreiðsla þess hefði aukist, eftir að útgáfa þess fluttist á netið. Ráðuneytið efaðist ekki um gildi auglýsinga í blaðinu.

Margrét virtist telja, að auglýsingamátturinn væri ekki nægilega mikill, þar sem aðeins einn hefði sótt um embætti aðstoðarríkislögreglustjóra, sem auglýst hefði verið í Lögbirtingarblaðinu. Í sjálfu sér er ágætt að ræða, hvar opinberir aðilar eiga að auglýsa störf og annað og ekkert við slíkar umræður að athuga. Mestu skiptir þó, að farið sé að lögum og ekki sé unnt að ógilda ákvarðanir með vísan til þess, að það sé ekki gert.