23.5.2007 21:05

Miðvikudagur, 23. 05. 07.

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir efndu til blaðamannafundar á Þingvöllum kl. 11.00 og kynntu sáttmála nýrrar stjórnar, sem þau vilja, að nefnd verði Þingvallastjórn.

Jón Sigurðsson sagði af sér formennsku í Framsóknarflokknum og tók varaformaðurinn Guðni Ágústsson við kyndlinum. Guðni hefur níu líf í pólitík en fyrir ári átti að skipta honum út sem varafomanni, þegar Halldór Ásgrímsson hvarf af braut.

Víða var mér vel tekið í dag með endurnýjað umboð sem dóms- og kirkjumálaráðherra og þakka ég góðar kveðjur, sem mér hafa borist.

Í hádeginu hlustaði ég á Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands, flytja erindi um skólann í Rotary-klúbbi Reykjavíkur. Á innan við áratug frá því að skólinn komst á legg hefur hann vaxið og dafnað undir kröftugri stjórn Hjálmars. Hann taldi, að gæfuríkt spor hefði verið stigið, þegar ákveðið var að stofna nýjan einkarekinn skóla frá grunni í stað þess að sameina skóla, sem voru hér fyrir, og færa þá á háskólastig. Þá sagði hann samþættingu listgreina innan skólans hafa gefið góða raun og víða væri litið á hann sem fyrirmynd.

Þegar þær ræddu saman í Kastljósi í sjónvarpinu í kvöld um stjórnarsáttmálann Guðfinna Bjarnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstri/grænna, og minnst var á breytingar í heilbrigðiskerfinu, gat Guðfinna um góðan árangur af því, að hleypa einkarekstri í háskólastarfsemina. Listaháskóli Íslands er meðal þess, sem sannar ágæti þeirrar stefnu. Um leið og minnst var á einkarekstur, fór Kolbrún hins vegar að tala um einkavæðingu, sem er allt annað, eins og Guðfinna nefndi.

Kolbrún sagðist skilja muninn á einkarekstri og einkavæðingu, þótt hún talaði eins og hún gerði það ekki. Einmitt þessi framganga vinstri/grænna fælir marga frá því einu að reyna samtöl um stjórnmálasamstarf við þau. Kreddufestan er svo mikil, að ekki er einu sinni unnt að nota rétt orð.