13.5.2007 10:45

Sunnudagur, 13. 05. 07.

Glæsileg úrslit!

Úrslit kosninganna í gær voru glæsileg fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann fékk 36,6% atkvæða eða 2,9% meira fylgi en fyrir fjórum árum og 25 þingmenn í stað 23. Flokkurinn getur haldið áfram í ríkisstjórn með Framsóknarflokki með samtals 32 þingmenn af 63, myndað stjórn með vinstri/grænum með 34 þingmenn eða Samfylkingu 43 þingmenn.

Ríkisstjórnin hélt velli í kosningunum, þótt Framsóknarflokkurinn tapaði 6% og fengi 11,7% og sjö þingmenn í stað 12.

Samfylkingin tapaði 4,2% og tveimur þingmönnum, er með 18 þingmenn í stað 20.

Vinstri/græn bættu við 5,5% fengu 14,3% og níu þingmenn í stað fimm áður.

Frjálslyndir héldu sínu en Íslandshreyfingin kom ekki að manni.

Þetta eru söguleg og sterk úrslit fyrir Sjálfstæðisflokkinn eftir 16 ára stjórnarsetu og forystu nær allan þann tíma. Úrslitin staðfesta, að Samfylkingunni hefur fatast flugið undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Í fréttum hafa birst frásagnir af því, að í mínu kjördæmi Reykjavík suður hafi allt að 20% kjósenda strikað út nafn á lista Sjálfstæðisflokksins og er getum leitt að því, að þar hafi menn farið að tilmælum Jóhannesar Jónssonar í Bónus í auglýsingu í öllum dagblöðum daginn fyrir kjördag um að strika yfir nafn mitt. Ég hef ekki fengið neina staðfestingu á því, hvað rétt er í þessum tölum.

Útstrikanir eru hluti leikreglna okkar en hitt er óvenjulegt, að opinberar áskoranir birtist með hvatningu um þær. Hér er um einn anga Baugsmálsins að ræða. Málið var komið af stað, þegar ég varð ráðherra og hefur verið á döfinni allt kjörtímabilið. Frá upphafi hefur verið leitast við að setja það í pólitískt samhengi tengt Sjálfstæðisflokknum. Spurning var, hvort og þá hvernig því yrði beint gegn flokknum í kosningabaráttunni að þessu sinni. Í auglýsingunni lagði Jóhannes í Bónus spjót sitt  gegn mér persónulega en hvatti til stuðnings við flokkinn. Í kosningabaráttunni taldi ég mestu skipta, að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi sterkur frá kosningunum, sem gerðist. Hafi ómálefnaleg og ósmekkleg persónuleg árás á mig stuðlað að því, tel ég meginniðurstöðuna og styrk Sjálfstæðisflokksins skipta mestu.