10.5.2007 22:17

Fimmtudagur, 10. 05. 07.

Klukkan 14.00 hitti ég lögreglustjóra á fundi í Þjóðmenningarhúsinu og kynnti þeim löggæsluáætlun, sem gildir til 2011 og er samin í framhaldi af nýskipan lögreglumála, sem kom til sögunnar um síðustu áramót.

Þegar sést, hverjir sigruðu í Evróvisjón-keppninni í kvöld, kemur í ljós, hvar keppnin vekur mesta athygli um þessar mundir, það er meðal þjóðanna í austur- og suðausturhluta Evrópu. Líklegt er, að það sé frekar samkennd meðal þjóða, sem ræður hvar atkvæðið fellur, en tónlistin og umgjörð hennar. Miðað við þá dóma, sem féllu hjá matsmönnum norrænu sjónvarpsstöðvanna á lögum í keppninni, hefði Eiríkur Hauksson átt skilið að ná betri árangri en að komast ekki í hóp hinna tíu, sem komust í úrslitin.

Eiríkur Hauksson sagði raunar í sjónvarpinu eftir keppnina, að austur-evrópsk mafía hefið keypt úrslitin í henni. Hvatti hann okkur til að kjósa Finna eða Svía úrslitakvöldið.

Tony Blair tilkynnti í dag, að hann mundi láta af formennsku í breska Verkamannaflokknum og embætti forsætisráðherra 27. júni. Hann hefur átt margar stórar stundir á ferli sínum og einni þeirra má kynnast í kvikmyndinni The Queen, þegar lýst er viðbrögðum hans við láti Díönu prinsessu og samskiptum við Elísabetu drottningu.

Blair hefur valdið straumhvörfum meðal jafnaðarmanna í Evrópu. Jafnt í Frakklandi og hér á landi takast þeir á um það innan sinna raða, hvort þeir eigi að fylgja opinni stefnu hans eða halda sig við gamaldags vinstrimennsku og sósíalisma. Blair hefur einnig espað pólitíska andstæðinga sína í öðrum flokkum, sem telja hann ótrúverðugan tækifærissinna.

Nú er mönnum efst í huga, að Tony Blair var einarður málsvari innrásarinnar í Írak. Vonbrigði almennings yfir blóðugri framvindu mála í Írak mótar viðhorfið til Blairs, þegar hann kveður. Sjálfur segir hann nú, að hugsanlega hafi innrásin verið mistök. Í dómi sögunnar yfir Blair verður þess minnst, hve miklum árangri hann náði í friðarviðræðum um Norður-Írland.