15.5.2007 20:07

Þriðjudagur, 15. 05. 07.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 09.30 og ræddum við saman um stöðuna að loknum alþingiskosningum en eftir að fundinum lauk sátum við ráðherrar Sjálfstæðisflokksins á rökstólum.

Þegar ég kom út af fundinum vildi Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður sjónvarps ríkisins, fá að vita afstöðu mína til útstrikana, ég sagðist ekki hafa heyrt neinar tölur og gæti ekki sagt neitt um málið. Spurði hún, hvort ég hefði ekki heyrt tölur í fréttum. Var hún þar að vísa til frétta sjónvarpsins, sem sagði í gær, að ég hefði fallið niður um tvö sæti en í kvöld, að óvíst væri, hvort ég hefði fallið niður um eitt eða tvö sæti. Þetta sýnir óvissu í málinu, á meðan tölur frá talningamönnum hafa ekki verið birtar.

Sjónvarpið er eini fjölmiðillinn, sem sýnir þessu útstrikanamáli einhvern áhuga og var með útstrikanir í fjórum fréttum í fréttatíma sínum í kvöld. Það er þegar gengið var á eftir mér, þegar rætt var um athugun umboðsmanns alþingis á embættaveitingum, en gagnaöflun vegna hennar lauk 10. febrúar 2007, þegar rætt var Gunnar Helga Kristinsson um val á mönnum í ráðherraembætti og Baldur Símonarson um útstrikanir á Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.

Í fréttinni um athugun umboðsmanns alþingis, sem er löngu lokið og er ekki í neinum tengslum við fréttir síðustu daga, sagði samkvæmt ruv.is:

„Dómsmálaráðuneytið hefur sætt harðri gagnrýni fyrir það hvernig staðið var að auglýsingum á embættum ríkissaksóknara og vararíkislögreglustjóra. Umræðan varð til þess að Jóhannes Jónsson í Bónus skoraði á kjósendur að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra á kjörseðlum. Svo virðist sem um fimmtungur kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður hafi gert það. “´

Hvernig getur fréttastofan sannreynt, að umræða um það, að dómsmálaráðuneytið auglýsti embætti í Lögbirtingablaði, eins og lögbundið er, hafi verið kveikjan að níðauglýsingu Jóhannesar Jónssonar í Bónus? Sjálfur lýsir Jóhannes Baugsmálinu sem kveikjunni að auglýsingu sinni. Veit fréttastofa sjónvarps ríkisins betur? Er hún að bera blak af Jóhannesi? Eða er bara einhverju slegið fram um þetta, sem hentar fréttastofunni vegna hennar eigin framgöngu?

Hér má til dæmis sjá allt aðra skoðun á þessu máli, en fram kom í sjónvarpsfréttum í kvöld.