8.5.2007 20:34

Þriðjudagur, 08. 05. 07.

Töluverður tími fór í það hjá mér í dag að svara spurningum blaða- og fréttamanna um það, hvers vegna auglýst hefði verið eftir aðstoðarríkislögreglustjóra í Lögbirtingablaðinu í framhaldi af frétt sjónvarpsins um málið í gærkvöldi.

Hér eru nokkrar staðreyndir:

1. Auglýst var eftir lögfræðingi, enda starfslýsing þannig að lögreglumaður getur ekki uppfyllt hana. Þess vegna er óskiljanlegt, að kvartað sé undan því, að félagsmenn í Landssambandi lögreglumanna hafi ekki getað kynnt sér auglýsinguna.

2. Lögfræðingar voru markhópur auglýsingarinnar. Ráðuneytinu er kunnugt um, að Lögbirtingablaðið er lesið á öllum embættum sýslumanna og lögmenn fylgjast með því, sem þar birtist.

3. Embætti aðstoðarríkislögreglustjóra hefur aldrei verið auglýst áður, en lögum samkvæmt er skylt að auglýsa það í Lögbirtingablaði.

4. Embætti ríkissaksóknara var auglýst í Lögbirtingablaðinu og bárust 5 umsóknir. Embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu var auglýst í Lögbirtingablaði og víðar og bárust 2 umsóknir. Ráðuneytið gat ekki vitað fyrirfram, hvað margir mundu sækja um embætti aðstoðarríkislögreglustjóra eða álitið, að birtingarstaður auglýsingar réði því.

Af þessum staðreyndum er tæplega unnt að draga aðra ályktun en að fréttir um þetta mál á þann veg, að eitthvað óeðlilegt eða undarlegt sé á ferðinni, séu í besta falli byggðar á þekkingarleysi. Verra er, ef þær byggjast á viðleitni til að gera málið tortryggilegt án hinnar minnstu málefnalegu ástæðu.

Fréttastofum RÚV finnst það eiga sérstakt erindi við hlustendur, hverrar ættar umsækjandinn um embætti aðstoðarríkislögreglustjórans er og móðir hans sé ritari á ráðherraskrifstofu minni. Spyrja má, hvort fréttamennirnir telji það skýringu á því, að aðeins einn sótti um embættið - eða auglýst hafi verið í Lögbirtingablaðinu vegna uppruna umsækjandans?

Í síðustu viku hitti ég fimm umsækjendur um embætti ríkissaksóknara og ræddi við þá alla og lét í veðri vaka, að ég mundi taka ákvörðun öðru hvoru megin við helgina. Eftir samtölin taldi ég mig þurfa lengri tíma til að gera upp hug minn og lét tilkynna umsækjendum það. Nú er tekið til við að gera þetta tortryggilegt og sýnist mér spunameistarinn Pétur Gunnarsson fara þar fremstur í flokki - sá, sem taldi sig hafa trausta heimild fyrir stórpólitískri frétt, af því að hann heyrði hana á bar. Ég veit ekki, hvar hann telur sig hafa heyrt það, sem hann spinnur um þetta. Hann hefur að minnsta kosti ekki haft fyrir því að spyrja mig um málið frekar en fréttastofa sjónvarpsins.