Fimmtudagur, 03. 05. 07.
Í Kastljósi hefur undanfarið verið sagt frá því, að á alþingi hefði að tillögu allsherjarnefndar verið samþykkt að veita ungri konu frá Guatemala íslenskan ríkisborgararétt. Helgi Seljan hóf frásögnina með einræðu í þættinum og henni hefur síðan verið haldið áfram. Í gærkvöldi var látið að því liggja, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði á einhvern hátt farið á sérstakan hátt með umsókn konunnar. Í tilefni af því sendi ráðuneytið frá sér fréttatilkynningu í dag undir fyrirsögninni: Hefðbundin vinnubrögð við afgreiðslu, þar sem segir:
„Vegna umræðna um afgreiðslu alþingis á umsókn ungrar stúlku frá Guatemala um ríkisborgararétt vill dóms- og kirkjumálaráðuneytið taka fram:
Aðalreglan er, að alþingi veitir íslenskan ríkisborgararétt með lögum. Þegar umsækjandi óskar eftir, að umsókn fari fyrir alþingi, fer hún um hendur dóms- og kirkjumálaráðuneytis, sem leitar umsagnar lögreglu og útlendingastofnunar. Ráðuneytið óskar eftir afgreiðslu þessara stofnana innan þeirra tímamarka, sem afgreiðsla alþingis setur.
Í því tilviki, sem hér um ræðir hefur verið gefið til kynna, að afgreiðslan hafi verið á annan veg en almennt gerist. Fullyrðingar um það efni eru ekki réttar miðað við starfsvenjur ráðuneytisins, þegar umsókn er lögð fyrir alþingi. Upplýsingar frá lögreglu og útlendingastofnun eru þess eðlis, að almennt er unnt að veita þær samdægurs, ef svo ber undir.
Tímafrestir, sem getið er um á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, gilda, þegar ráðuneytið sjálft veitir ríkisborgararétt, en ekki þegar umsókn er lögð fyrir alþingi.“
Ég heyrði síðan Sigurjón Þórðarson, þingmann frjálslyndra, segja í fréttum, að hann hefði skoðað gögn í allsherjarnefnd og hefði sannfærst betur en áður um, að ekki væri allt sem skyldi, þar sem umsagnir hefðu borist ráðuneytinu samdægurs. Grunsemd þigmannsins er úr lausu lofti gripin. Hvaða ástæða er til að gera afgreiðslu máls tortryggilega aðeins vegna þess, að hún er hröð? Í áranna rás hef ég svarað mögrum erindum, sem mér hafa borist sem ráðherra samdægurs - er það til marks um, að ég sé að hygla þeim, sem til mín leita?
Vissulega eru þau sjónarmið til innan stjórnsýslunnar, að ekki eigi að svara erindum of hratt, þar sem það sé líklegt sé til að minnka virðingu fyrir yfirvöldunum og þungum embættisskyldum. Best sé að hafa biðlista til að halda virðingu sinni. Ég hef aldrei verið þessarar skoðunar og hef þvert á móti kosið skjót viðbrögð, þar sem þau eiga heima.