Fimmtudagur, 31. 05. 07.
Alþingi var sett á hefðbundinn hátt klukkan 13. 30 og klukkan 19.50 flutti forsætisráðherra stefnuræðu sína.
Í umræðum um stefnuræðuna kom á óvart, hve Steingrími J. Sigfússyni, formanni vinstri grænna, er heitt í hamsi gagnvart Samfylkingunni og hve hann tekur það persónulega, að hún hafi myndað stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Kallaði hann sjálfan sig guðföður stjórnaraðildar Samfylkingarinnar en baðst í hinu orðinu undan því, að vera hafður að blóraböggli vegna stjórnasetu flokksins.
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði um vinstri/græn og Samfylkingu og framgöngu þeirra að loknum kosningum: „Þau vildu vera þar sem við vorum.“ Og vísaði hann þar til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, Steingrímur J. og Ögmundur Jónasson hefðu legið flatir fyrir Sjálfstæðisflokknum.
Þá kvað við nýjan tón hjá formanni Framsóknarflokksins í garð Evrópusambandsins, þegar hann sagðist óttast, að Samfylking drægi sjálfstæðismenn með sér inn í sólarblinduna af ESB. Er það ekki einmitt ógæfa Framsóknarflokksins að hans mati, að flokkurinn lét glepjast í ESB-málum? Hefur hann flokkinn nú með sér í málinu? Hann ætti að lesa álit fulltrúa hans í Evrópunefnd og ráða í það - hvaða stefna felst í því? Ekki treystu þeir sér til að vera með okkur sjálfstæðismönnum og vinstri/grænum í andstöðu við aðild að ESB.
Á fyrsta fundi, þegar kosið var í nefndir og í ræðum stjórnarandstöðunnar, kom fram mikill ótti við hinn mikla meirihluta ríkisstjórnarinnar á þingi. Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður frjálslyndra, taldi stjórnarþingmenn geta bannað umræður um fjárlög! Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður framsóknar, sagði sjálfstæðismenn geta komið málum í gegn með þingstyrk sínum, ef Samfylking sæti hjá við afgreiðslu máls.
Ég vakti máls á því fyrir nokkru, að María Kristjánsdóttir, leiklistargagnrýnandi Morgunblaðsins, hefði verið í Venezúela og skrifað greinaflokk í lesbók blaðsins til að bera blak af Hugo Chavez, einræðisherra í landinu.
Hugo Chavez gerir nú atlögu að frjálsum sjónvarpsstöðvum í Venezúela vegna gagnrýni þeirra á stjórnvöld. Fréttablaðið ber þetta undir Maríu Kristjánsdóttur í dag.
Maríu kemur þessi framgana einræðisherrans ekki á óvart, hann hafi sett lög í fyrra, sem gerðu honum þetta kleift, stærstu einkareknu sjónvarpsstöðvarnar tóku nefnilega þátt í valdaránstilrauninni gegn honum.
María er spurð: Af hverju gerir hann þetta? Hún svarar: „Chavez er þjóðernissinnaður og mjög andvígur öllum bandarískum áhrifum á menningarlíf Venesúela. Með þessum aðgerðum getur hann sett á fót nýja sjónvarpsstöð sem nær til allra landsmanna. Markmið hennar er að vera menningarlegt ríkissjónvarp, sem styður innlenda dagskrár- og kvikmyndagerðarmenn.“
Hér skal því haldið fram, að þessi skýring á framgöngu einræðisherrans sé hin frumlegasta, sem fram hafi komið hjá öðrum en svæsnustu málsvörum hans heima fyrir.- Chavez er að loka þessum stöðvum til að koma á fót menningarlegri sjónvarpsstöð, sem nær til landsins alls - þetta er stuðningur hans við innlenda dagskrárgerð. Hvers vegna skyldi fólkið mótmæla á götum úti? Vill það ekki innlent dagskrárefni?
Vinstri/græn og Mörður Árnason hétu því í kosningabaráttunn hér að afnema ohf. fyrir aftan nafn ríkisútvarpsins í sama tilgangi og Chavez lokar einkastöðvðum hjá sér að mati Maríu Kristjánsdóttur. Skyldi þetta ágæta fólk hér á landi kannski vilja ganga sömu leið og Chavez og loka einkastöðvum til að efla innlenda dagskrárgerð?