25.5.2007 20:52

Föstudagur, 25. 05. 07.

Aðalfundur Aflsins, félags qi gong iðkenda var haldinn í Von, húsi SÁÁ við Efstaleiti, klukkan 08.25 eftir hugleiðslu undir stjórn Gunnars Eyjólfssonar, hann minntist einnig Lóu Konráðsdóttur, sem andaðist sl. miðvikudag en hún stundaði æfingar með okkur um árabil.

Ég flutti skýrslu stjórnar, Guðni Hannesson gjaldkeri kynnti reikninga og Viðar H. Eiríksson ritari gerði grein fyrir félagafjölda og fjölda iðkenda. Í lokin heiðruðum við Gunnar Eyjólfsson heiðursforseta og sýndum honum þakklætisvott.

Fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar var haldinn í dag klukkan 09.30 og í tilefni dagsins var boðin terta á fundinum með kaffinu og teinu, en það er fastur liður að þeir drykkir eru í boði á fundunum fyrir utan vatn.

Eins og venja er við upphaf starfa eru ýmsar grunnreglur kynntar fyrir nýju fólki. Reglur um dagskrá ríkisstjórnarfunda, ritun fundargerða og varðveislu gagna eru að grunni til frá þeim tíma, þegar ég var ritari á ríkisstjórnarfundum undir lok áttunda áratugarins. Þá gildir sú regla í umræðum í ríkisstjórn, að ekki er vísað til ráðherra með nafni heldur embættisheiti.

Ákveðnar reglur gilda annars vegar um það, hvernig menn sitja á ríkisráðsfundum, og hins vegar um sætaröð þeirra á ríkisstjórnarfundum. Ég ætla ekki að rekja reglurnar hér, en miðað við allar vangaveltur í tilefni stjórnarskipta, er undarlegt, að fjölmiðlamenn skuli ekki hafa gert þessar reglur að umtalsefni eða hvers vegna ráðherrar sitja ekki á sama stað við ríkisráðsborðið og ríkisstjórnarborðið - eitt er víst, þar ræður ekki nein tilviljun.

Nú sit ég í kvöldsólinni í Fljótshlíð - þótt kaldir vindar blási er fegurðin og kyrrðin einstök.