19.5.2007 22:22

Laugardagur, 19. 05. 07.

Athygli hefur vakið, að Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, valdi sósíalistann Bernard Kouchner sem utanríkisráðherra í ríkisstjórn sinni. Kouchner hefur verið áberandi í frönsku stjórnmálalífi um langt árabil og látið að sér kveða á mörgum sviðum. Það vakti til dæmis sérstaka athygli, að hann studdi innrásina í Írak árið 2003, af því að hann taldi lífsnauðsynlegt fyrir Íraka að losna undan alræði Saddams Husseins.

Skipan Kouchners í embætti utanríkisráðherra er talin til marks um vilja Sarkozys til að bæta sambandið við Bandaríkin, sem beið nokkurn hnekki vegna afstöðu Jacques Chiracs gegn Bandaríkjamönnum og Bretum vegna innrásarinnar í Írak.

Frægt var, þegar Tony Blair sagði í breska þinginu, að ekki þýddi að bíða eftir niðurstöðu í öryggisráðinu, því að Frakkar mundu segja nei við öllu. Þá var de Villepin, fráfarandi forsætisráðherra og andstæðingur Sarkozys, utanríkisráðherra Frakka og þótti áhrifamikill í öryggisráðinu sem fulltrúi sjónarmiða Chiracs. De Viillepin hefur nú tapað áhrifum sínum í frönsku ríkisstjórninni með brottför Chiracs.

Eftir að Kouchner tók við embætti utanríkisráðherra lét formaður franskra sósíalista þau boð út ganga, að Kouchner væri brottrækur út flokknum.

Tony Blair fer nú vítt og breitt um veröldina til að kveðja, áður en hann lætur af embætti forsætisráðherra. Jimmy Carter, fyrrverandi Bandarikjaforseti, réðst harkalega á hann í tilefni komu hans til Washington vegna samstarfs hans við George W. Bush, Bandaríkjaforseta, um innrásina í Írak. Í fréttum var þessu lýst svona:

In an interview with BBC radio, Carter was asked how he would describe Blair's attitude to US President George W. Bush. He replied: "Abominable. Loyal, blind, apparently subservient.

"I think that the almost undeviating support by Great Britain for the ill-advised policies of President Bush in Iraq have been a major tragedy for the world."

Eftir að hafa lesið ræður og greinar Blairs um innrásina í Írak er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu, að ekki hafi þurft að þröngva honum til innrásar í Írak.