22.10.2013 22:20

Þriðjudagur 22. 10. 13

Í kvöld var sýnd í Svt1 ný mynd Our Nixon sem er að uppistöðu tekin af þremur nánustu samstarfsmönnum Richards Nixons í Hvíta húsinu, H.R. Haldeman, John Ehrlichman and Dwight Chapin. Þeir höfðu Super 8 kvikmyndavélar með sér á vinnustað og ferðalögum. Auk myndanna eru birtir kaflar úr upptökum af samtölum við Nixon. Þessar filmur voru allar gerðar upptækar fyrir 40 árum, gleymdust en eru nú aðgengilegar og er kvikmyndin nýkomin til sýninga. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna eins og sjá má hér.

Guðlaugur Gylfi Sverrisson framsóknamaður skrifar um slaka stöðu Framsóknarflokksins á vefsíðuna Pressuna í dag. Hann segir meðal annars:

„Fjölmiðlar hafa reynt, meðvitað eða ómeðvitað, að gera lítið úr framsóknarmönnum sem heild í mörg ár. Samkvæmt fjölmiðlum og sérstaklega hjá föstum pistlahöfundum, þykir sjálfsagt að gera lítið úr fulltrúum Framsóknarflokksins. Þá er það gert á þeim nótum að framsóknarmenn séu almennt erki-aular. Þeir gangi fyrir mútum, fyrirgreiðslu, helmingaskiptum, elski kindur meira en sjúklinga, séu á móti framförum, einangrunarsinnar, ómenntaðir, opnir í báða enda, steli fiskinum frá þjóðinni, séu náttúrusóðar og á móti umhverfisráðuneytinu, auðvaldsrónar, Finnur og Halldór, virkjunarsinnar, hækja íhaldsins, landsbyggðarflokkur og þ.a.l. á móti höfuðborginni, kjördæmapotarar og það sem er nýjast, að framsóknarmenn séu þjóðernissinnar líkt og fasistar voru í Evrópu á millistríðsárunum. Þarna eru fjölmiðlar með DV í fararbroddi komnir ansi langt í að hlutgera framsóknarmenn sem einhverskonar nýnasista, vegna áhuga flokksins á íslenskri menningu og trú flokksmanna á getu landsmanna til að vinna sig út úr þeim vanda sem Íslandi er í. Þær eru ófáar greinarnar og skopmyndirnar þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur fengið það óþvegið vegna trúar hans á getu landsins og íbúum þess.“

Fréttakona ríkisútvarpsins var í miklu uppnámi á Arnarhóli í dag þegar hún kom beint inn í hádegisfréttir og sagði frá mótmælum Gálgahraunvina og bréfi til innanríkisráðherra sem var á Austfjöðrum. Fréttakonan sagði að sér þætti bara nógu margt fólk á hólnum og vonaði greinilega að hún gæti flutt söng þess í fréttatímanum. Í raun var þetta allt mjög „ófréttalegt“ mátti frekar halda að þátttakandi í mótmælunum flytti boðskap sinn.