13.10.2013 21:50

Sunnudagur 13. 10. 13.

Jarðskjálftinn í morgun (4,8 stig undan Reykjanestá) fannst greinilega í Fljótshlíðinni. Síðar tók ég eftir að rammi af mynd sem hékk á vegg hafði dottið og glerið brotnað. Þetta rakti ég til skjálftans.

Í dag flutti breski rithöfundurinn og blaðamaðurinn John O'Sullivan fróðlegt erindi um Margaret Thatcher í Háskóla Íslands á vegum RNH og SUS. Hann var vinur og samstarfsmaður Thatcher í forsætisráðherratíð hennar og eftir það. Hann skrifaði fyrir hana ræður og aðstoðaði hana við ritun sjálfsævisögu hennar í tveimur bindum. Thatcher hóf ritun sjálfsævisögunnar rúmu hálfu ári eftir að hún var hrakin úr embætti forsætisráðherra. Við brottvísunina lagðist hún í þunglyndi og stuðlaði O‘Sullivan að bata hennar með þátttöku í ritun sjálfsævisögunnar. Hann er kaþólskrar trúar, og árið 2006 gaf hann út bókina The President, the Pope, and the Prime Minister um þátt Thatcher, Ronalds Reagans og Jóhannesar Páls II. páfa í því að fella kommúnismann.