8.10.2013 22:10

Þriðjudagur 08. 10. 13

Nú er unnt að horfa á viðtal mitt á ÍNN við Erlend Sveinsson, forstöðumann Kvikmyndasafns Íslands, á netinu eins og sjá má hér.

Barack Obama Bandaríkjaforseti efndi til blaðamannafundar í dag til að ræða stöðu bandarískra ríkisfjármála eftir að útgjaldabann alríkisstjórnarinnar hefur staðið í rúma viku vegna ágreinings á þingi um fjárútlát vegna Obamacare, heilbrigðiskerfisins sem kennt er við forsetann.

Obama sagði að vissulega væri útgjaldabannið alvarlegt en hitt væri þó verra ef þingið samþykkti ekki að hækka það sem í Bandaríkjunum er kallað debt ceiling en er þó ekki skuldaþak heldur hitt að ríkissjóður Bandaríkjanna geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart þriðja aðila. Obama sagði að skuldir ríkisins mundu ekkert hækka þótt þingið samþykkti að heimila þessar greiðslur. Yrði það ekki samþykkt væri voðinn hins vegar vís.

Það sannast á síðara kjörtímabili Obama sem sagt hefur verið að forseta geti þá verið mislagðari hendur en á hinu fyrra. Hann vandi sig oft ekki sem skyldi þar sem hann eigi ekki kosningar yfir höfði sér.