23.10.2013 23:10

Miðvikudagur 23. 10. 13

Í dag ræddi ég við Halldór Halldórsson, fyrrv. bæjarstjóra á Ísafirði, í þætti mínum á ÍNN. Hann hefur boðið sig fram í forystusæti á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík. Eins og áhorfendur munu kynnast er Halldór gjörkunnugur sveitarstjórnarmálum og hefur skýra sýn á hvert skuli stefna fyrir utan mikla reynslu af að leiða fólk saman. Næst er þátturinn sýndur á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Í samtalinu segist Halldór Halldórsson vera sammála Jóni Gnarr borgarstjóra um mannréttindamál en hann viti ekki hvort þeir séu sammála um sveitarstjórnarmál því að hann hafi ekki heyrt hann tala um þau!

Það er sérkennilegt að lesa rök stuðningsmanna Jóns Gnarrs fyrir ágæti hans í embætti borgarstjóra. Árni Matthíasson á Morgunblaðinu segir til dæmis í blaðinu í dag:

„Sú nýlunda að vera með borgarstjóra sem er borgarstjóri Reykjavíkur, en ekki höfuðborgarstjóri, sú nýlunda að maðurinn í brúnni sé að vinna fyrir borgarbúa fyrst og fremst, hefur að vonum vakið pirring andstæðinga Besta flokksins, en einnig óánægju utan borgarinnar, þar sem menn hafa verið duglegir að krefja borgina um hitt og þetta smálegt fyrir það að vera höfuðborg. Sú togstreita á milli borgar og landsbyggðar birtist svo í því að stjórnmálamenn stefna til borgarinnar, flytja jafnvel lögheimili um „stundarsakir“ til Reykjavíkur til að seilast þar til valda og þá væntanlega færa borgina í gamalkunnan búning höfuðborgar sem er svo mikil höfuðborg að hún tekur ekki tillit til íbúa sinna.“

 

Árni ætlar greinilega að sneiða að Halldóri Halldórssyni en skrifar á þann hátt að óskiljanlegt er þótt fyrr í grein sinni hafi hann rætt um gildi þess að stjórnmálamenn tali mannamál. Þá einkennir það málflutning þeirra sem hefja Jón Gnarr til skýjanna að þeir geta lítið úr þekkingu og reynslu á sviði sveitarstjórnarmála. Þetta er andkannaleg afstaða en óhjákvæmileg fyrir þá sem mæla með borgarstjóra sem svarar út í hött þegar hann er spurður um úrlausnarefni á verksviði hans.