9.10.2013 18:20

Miðvikudagur 09. 10. 13

Í kvöld ræði ég við Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í þætti mínum á ÍNN. Við ræðum meðal annars hvernig er að starfa í einu ráðuneyti með tveimur ráherrum. Þetta er eitt af furðuverkunum sem urðu til við stjórnarráðsbreytingu Jóhönnu Sigurðardóttur. Þarna er einn ráðuneytisstjóri og einn fjármálastjóri og þeir bera embættislega ábyrgð á ráðstöfun á helmingi fjárlaga um 250 milljörðum króna – hin pólitíska ábyrgð er hins vegar tvískipt.

Þyki þetta til marks um skref til að að styrkja ábyrgð og skilvirkni við stjórnun er það eftir bókum sem ég hef ekki lesið. Ég spyr Kristján Þór meðal annars að því hvort embættismönnum sé ljóst undir hvaða ráðherra eigi að bera mál til endanlegrar ákvörðunar. Hann telur að bærilega hafi tekist að greiða úr flækjum sem kunna að myndast.

Samtal okkar Kristjáns Þórs má sjá klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.