11.10.2013 22:10

Föstudagur 11. 10. 13

Í morgun var dagskrá DR1 komin á sinn stað í Morgunblaðinu og er það fagnaðarefni fyrir þá sem fylgjast með höfuðrás danska sjónvarpsins. Það hlýtur að vera vandasamt að velja þær stöðvar sem á að kynna á síðum íslenskra dagblaða. Dagskrá færeyska sjónvarpsins er til dæmis forvitnileg.

Viðtal mitt við Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á ÍNN hinn 9. október er komið á netið og má sjá það hér.

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri fjármálaeftirlitsins, ritar athyglisverða grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann ræðir um hvernig haldið hefur verið á stjórn mála í landinu frá því að eftir að bankarnir urðu gjaldþrota.

Hann segir meðal annars:

„Við frágang á efnahagsreikningum bankanna haustið 2009 var kröfuhöfum þeirra »seldur« yfirgnæfandi hlutur í Íslandsbanka (95%) og Arion (87%), en íslenska ríkið hefur nú eignast Landsbankann að nánast öllu leyti. Bankarnir hafa hagnast verulega á þessum tíma og eigið fé þeirra styrkst að sama skapi - eða um 140 milljarða í tilviki Íslandsbanka og Arion. Ávinningur kröfuhafa er því töluverður og spyrja má hvort ríkið hafi »selt« á of lágu verði.“

Þessi orð hníga í sömu átt og málflutningur Ásgeirs Jónssonar hagfræðings þegar hann lýsir mistökunum sem gerð voru við stjórn fjármála ríkisins undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar.