29.10.2013 22:45

Þriðjudagur 29. 10. 13

Í hádegi á þriðjudögum  er unnt að fara í Epiphany-kirkjuna í hjarta Washington og hlýða  á 50 mínútna tónleika í boði kirkjunnar. Að þessu sinni lék Francesca Anderegg á fiðlu og Brent Funderburk á píanó - frábærir tónlistarmenn.

Þaðan lá leiðin að Dupont Circle í hina frægu bókabúð og kaffihús Kramerbooks & afterwords og loks í málverkasafnið The Phillips Collection. Þar er einstök sýning á verkum Van Goghs - Repetitions - það er endurtekningar, sýnd eru málverk þar sem listamaðurinn glímir oftar en einu sinni við sama mótífið. Sýningin er mjög hugvitsamlega gerð.

Það sannaðist tvisvar í dag úti á götu í Washington að heimurinn er lítill. Fyrst snemma í morgun þegar kallað var á Rut og skokkandi kom islensk stúlka á leið til vinnu sinnar. Síðdegis stóðum við á strætisvagnastöð og töldum smápeninga þegar fram hjá renndi bíll með kunnuglegt andlit í afturglugga, bílstjórinn ók fyrir horn og út úr bílnum steig íslenskur prófessor í rannsóknarleiðangri.