17.10.2013 22:20

Fimmtudagur 17. 10. 13

Engar tímasetningar stóðust af hálfu þeirra sem settu ESB-umsóknina af stað, sögðu hana fara hraðbyri í gegnum báknið í Brussel og í síðasta lagi yrði greitt um hana þjóðaratkvæði fyrir árslok 2012. Ekkert af þessu stóðst og ekki hafði verið tekið til við að ræða hin eiginlegu ágreiningsmál þegar ESB-ríkisstjórnin féll í kosningum og and-aðildarsinnar fengu góðan byr sem fleytti þeim inn í stjórnarráðið.

Þeir sem aldrei vildu ræða þessar tímasetningar aðildarsinna fyrir kosningar hafa eftir þær fest sig í umræður um tímasetningar vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram ESB-umræðunum eftir að á þeim hefur verið gert hlé. Þetta tal um tímasetningu eftir að viðræðum hefur verið hætt er í raun hlægilegt. Hver ætlar að flytja tillögu um að taka upp viðræðuþráðinn að nýju? Hvaða stjórnmálamaður er svo skyni skorpinn að hann telji sér til framdráttar að feta í fótspor Samfylkingarinnar sem lenti í „hamförum“ í þingkosningunum?