15.10.2013 22:55

Þriðjudagur 15. 10. 13

Fyrir tæpum fimm árum varð dálítið uppnám þegar trúnaðarskjal úr norska sendiráðinu á Íslandi birtist í fjölmiðlum í Noregi. Þar var lýsing sendiherra Noregs á Íslandi á hádegisverði með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í danska sendiráðinu. Myndin sýndi forsetann í miklum ham. Hann hjó á báða bóga.

Þessi atburður rifjaðist upp við lestur greinar sem birtist í norska blaðinu Klassekampen um ráðstefnuna sem Ólaf Ragnar skipulagði um norðurslóðir í Hörpu án þess að setja norska embættismenn á mælendaskrá. Sagt er frá greininni á Evrópuvaktinni. Norski stjórnmálafræðingurinn sem skrifar hana veltir fyrir sér hvort Norðmenn hafi ekki átt upp á pallborðið vegna þess að þeir hafi gert á hlut Íslendinga í Norðurskautsráðinu.

Vangaveltur í þessa veru eru mun algengari í erlendum fjölmiðlum en íslenskum. Rétt er hjá norska greinarhöfundunum að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra brást mjög illa við þegar fimm af átta ríkjum í Norðurskautsráðinu tóku að ráða ráðum sínum án þess að bjóða íslenskum fulltrúa til fundarins. Ekki batnaði skap Össurar við að ákveðið var að skrifstofa Norðurskautsráðsins yrði í Tromsö en ekki á Íslandi eins og hann vildi. Reiði hans í garð Norðmanna birtist meðal annars í ásökunum um að þeir stjórnuðu aðför ESB í garð Íslendinga í makríldeilunni.

Hafi það ráðist af óvild að norskir embættis- eða stjórnmálamenn voru ekki á mælindaskrá á norðurslóðaráðstefnunni í Hörpu kemur það Íslendingum örugglega almennt á óvart. Hitt er undarlegra fyrir Íslendinga hve lítinn áhuga Norðmenn sýndu knattspyrnuleiknum í kvöld sem markaði þáttaskil í íslenskri knattspyrnusögu.