30.6.2012 22:55

Laugardagur 30. 06. 12

Fór til Vestmannaeyja í morgun með Herjólfi klukkan 10.00 og kom til baka með honum frá Eyjum klukkan 14.30.Veðrið var eins gott og það getur orðið og það var gaman að fylgjast með pollunum leika knattspyrnu á Hásteinsvelli. Síðan hafði ég smástund til að líta inn í Einarsstofu í Safnahúsinu þar sem þess var minnst að 150 ár eru liðin frá því að bókasafn kom til sögunnar í Vestmannaeyjum.

Eins og augljóst hefur verið frá því að Ólafi Ragnari snerist hugur og hann ákvað að bjóða sig fram að nýju bar hann sigur úr býtum í forsetakosningunum.

Ég hef ekki fylgst náið með baráttunni. Hætti að horfa umræðuþáttinn í sjónvarpinu í gær, leiðinlega var haldið á stjórn hans. Of mikil áhersla á neikvæða þætti. Þetta yfirbragð stuðlaði að lélegri kjörsókn.

Herdís Þorgeirsdóttir sagði réttilega í sjónvarpsþætti í kvöld að tilfinningin hefði orðið sú að stjórnarandstæðingar legðust á sveif með Ólafi Ragnari en stjórnarsinnar Þóru. Við það tók að fjara undan Þóru auk þess sem Ólafur Ragnar sló hana út af laginu strax og hann hóf kosningabaráttu sína.