1.6.2012 23:50

Föstudagur 01. 06. 12

Aðalfundur Aflsins var haldinn kl. 08.35 í Von, húsi SÁA við Efstaleiti. Ég flutti skýrslu stjórnar sem lesa má hér. Í tilefni 10 ára afmælis félagsins tilnefndum við máttarstólpa Aflsins í fyrsta sinn þeir eru: Anna S. Valgarðsdóttir, Guðrún Erlendsdóttir, Dagbjartur Sigurbrandsson, Sigurður Guðmundsson og Viðar H. Eiríksson. Elsa Haraldsdóttir var kjörin gjaldkeri félagsins í stað Loga Guðbrandssonar sem óskaði eftir að draga sig í hlé. Að loknum aðlafundarstörfum var boðið upp á súkkulaðitertu frá Jóa Fel og voru henni gerð góð skil.

Jón Bjarnason fór þess á dögunum enn á ný á leit við Jóhönnu Sigurðardóttur að hún ræddi við hann um ESB-mál á alþingi. Jóhanna svaraði:

„Varðandi þá ósk hv. þingmanns að ég taki þátt í umræðunum um ESB í einhverri sérstakri umræðu sem hann boði til verð ég að segja að hv. þingmaður er alveg fullsæmdur af því að utanríkisráðherra sem fer með þetta mál taki umræðuna við hv. þingmann.“

Þetta svar forsætisráðherra sýnir að hún treystir sér einu sinni ekki í þingumræður um ESB-málefni við stjórnarsinna. Það er engin furða að þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýni forsætisráðherra fyrir framgöngu gagnvart þinginu þegar hún sýnir stuðningsmanni ríkisstjórnarinnar og fyrrverandi ráðherra slíka óvirðingu.

Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú minna en Framsóknarflokksins. Össur Skarphéðinsson virðist lifa í þeirri trú að hann geti hresst upp á fylgið með árásum á stjórnarandstöðuþingmenn. Hann ætti frekar að taka í lurginn á þingmönnum Samfylkingarinnar og sannfæra þá um nauðsyn þess að ýta Jóhönnu til hliðar.