1.6.2012

Aflinn 10 ára - aðalfundur


Við komum í dag saman til 10. aðalfundar Aflsins. Þennan dag fyrir 10 árum stofnuðum við þetta ágæta félag  Aflinn áhugamannafélag iðkenda Qi GONG, í Café Flóra. Við settum félaginu lög og er tilgangur þess að stuðla að kynningu á qi gong og efla samstöðu iðkenda á Íslandi.

Í tilefni af stofnfundinum skrifaði ég á vefsíðu mína:

„Að morgni laugardagsins 1. júní hittumst við rúmlega 40 iðkendur qi gong undir forystu Gunnars Eyjólfssonar leikara í Skautahöllinni í Laugardal - æfðum í tæpa klukkustund en fórum síðan í Café Flóra í Grasagarðinum og stofnuðum félagið AFLINN til að sinna okkar málum og annarra, sem hafa hug á að stunda qi gong hér á landi. Settum við félaginu lög og kusum stjórn […] við Gunnar höfum stundað þessar æfingar saman síðan 1988 og hin síðari ár nokkrum sinnum í viku.

Er ánægjulegt að fylgjast með því, að þeim fjölgar ár frá ári, sem telja sig hafa gagn af þessum æfingum. Með félagsheitinu AFLINN er vísað til eldstóarinnar og þess að járnsmiður gætir þess, að neistinn í aflinum slokkni aldrei.“

Aflinn okkar hefur dafnað og neistinn aldrei slokknað vegna þátttöku áhugasamra félagsmanna. Nú eru þeir 190.

Stjórn Aflsins er kjörin til tveggja ára í senn. Stjórnarkjör var síðast á aðalfundi 28. maí 2010 og eru embættismenn félagsins: Heiðursforseti: Gunnar H. Eyjólfsson Formaður: Björn Bjarnason Ritari: Viðar H. Eiríksson Gjaldkeri: Logi Guðbrandsson Meðstjórnendur: Kristbjörg Þ. Kjeld, Árni Zophaniasson og Árni Bergmann. Skoðunarmaður  reikninga er Dagbjartur Sigurbrandsson

Viðar hefur tekið saman lista með nöfnum 25 félaga sem hafa tekið að sér að leiða æfingar. Vil ég færa þeim sérstakar þakkir. Án starfs þeirra hefði Aflinn ekki náð til eins margra og félagatalið sýnir. Nú er unnt að stunda æfingar undir merkjum félagsins á tveimur stöðum í Reykjavík, í Garðabæ og Hafnarfirði auk hugleiðslu í húsi Krabbameinsfélagsins. Undanfarin sumur hafa æfingar verið utan dyra í Grasagarðinum í Laugardal.

Aflinn hefur aldrei auglýst starfsemi sína og æfingarnar er unnt að stunda á endurgjalds. Greiðsla árgjalds félagsins veitir aðeins atkvæðisrétt á þessum aðalfundi okkar.

Öðru hverju erum við Gunnar beðnir um að kynna qi gong á almennum vettvangi. Gunnar kynnti qi gong til dæmis nýlega á fundi með læknum og heilbrigðisstarfsfólki  á Landsspítalanum.

Undir lok mars efndum við til qi gong daga í Skálholti en þeir eru fastur liður í kyrrðardagaþjónustu staðarins.

Áhugi er á því að gefa út efni þar sem æfingum okkar er lýst og kynnt saga qi gong og staða í samtímanum. Tveir félagar okkar Þóra Halldórsdóttir og Þorvaldur Ingi Jónsson hafa unnið að því að taka saman efni sem ætti að mínu mati að koma út í einni bók.  Hvort af því verður kemur í ljós en ég þakka þeim áhuga þeirra. Þorvaldur Ingi hefur undandfarnar vikur tekið upp mikið efni með Gunnari sem ætlunin er að koma á prent.

Þóra vinnur nú að undirbúningi komu qi gong meistarans dr. Yangs frá Bandaríkjunum hingað til lands í lok september. Dr. Yang er meðal öflugustu qi gong leiðbeinenda á Vesturlöndum og liggja eftir hann margar bækur og mynddiskar.  Verður ekkert ofsagt um áhrif hans. Er mikils virði að fá  dr. Yang til landsins og vil ég þakka Þóru hve mikið hún hefur lagt á sig af þessu tilefni.

Góðir fundarmenn!

Skýrsla mín verður ekki lengri.  Starfsemi félagsins er í föstum og góðum skorðum.

Á þessum fundi verður gengið til stjórnarkjörs. Við Viðar bjóðum okkur fram til setu í stjórninni næstu tvö árin en Logi dregur sig í hlé og þakka ég honum gott samstarf og nákvæma stjórn á fjármálum félagsins. Þá vil ég einnig þakka Viðari samstarfið. Elja hans og alúð við að halda utan um hópinn með aðstoð upplýsingatækninnar hefur haldið neistanum lifandi í Aflinum.

Þá vil ég þakka ykkur ágætu félagsmenn samstarfið undanfarin ár.