6.6.2012 20:35

Miðvikudagur 06. 06. 12

Skakki turninn í Písa er eitt mannvirkja heims sem allir þekkja. Í dag gekk ég upp á topp hans, það kostar 15 evrur og er vissulega þess virði. Síðast þegar ég kom að turninum biðu menn í svo löngum röðum eftir að fá aðgang að honum að ég varð frá að hverfa. Annað hvort eru færri ferðamenn núna eða skipulagið betra. Unnt var að kaupa aðgang án þess að bíða í röð. Skoðunarferðin hófst síðan um 90 mínútum síðar.

Á VG-vefsíðunni Smugunni er rætt við Einar Kárason rithöfund vegna þess sem ég sagði hér á síðunni í gær að ég íhugaði að fá ummæli sem hann birti eftir Jóhannesi í Bónus dæmd dauð og ómerk auk þess að krefjast miskabóta. Einar er drjúgur með sig í vefsíðusamtalinu og segist ekki áhyggjufullur og undrast að hann eigi að bera ábyrgð á spurningum sem hann spyr. Hann skráði hins vegar viðtalið og viti ég rétt sviptir það menn ekki ábyrgð að mati dómara. Þá segir á Smugunni:  „Hann hefur örugglega efni á því að fara í mál,“ segir Einar. „Þeir eru með svo fín eftirlaun þessir menn.“

Þetta er sérkennileg afstaða til þess að menn höfði mál til að bregðast við ósannindum um sig og verja æru sína: að þeir hafi ekkert annað við peningana sína að gera. Eins og ég sagði hér á síðunni í gær er ekki við því að búast að nein afsökun komi frá þeim sem standa að þessum skrifum í Mannlífi. Viðbrögð Einars sanna það, nær er að kenna þau við forherðingu. Ekki veikir slík afstaða málstað þess sem veltir málshöfðun fyrir sér.

Einar Kárason segist ekki nenna að lesa bók mína Rosabaug yfir Íslandi og sjá tilvitnun sem ég birti þar í skrif hans á tíma Baugsmálsins til stuðnings Baugsmönnum. Hann er ekki hinn fyrsti af þeim sem koma við sögu í bókinni sem látast ekki hafa lesið hana eða ætla ekki að gera það. Skiljanlegt er að þeir vilji stinga hausnum í sandinn þegar þessi tími og afstaða þeirra ber á góma.