3.6.2012 16:55

Sunnudagur 03. 06. 12

Kvartett Kammersveitar Reykjavíkur efndi til þriðju Jóns Leifs-tónleikanna í dag klukkan 13.00 í Kaldalóni Hörpu, þetta var fyrsti kvartett Jóns, saminn í Berlín við upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar 1939 og snýst um líf og dauða. Hefur hópurinn nú flutt alla þrjá kvartetta Jóns Leifs og er þetta liður í undirbúningi undir útgáfu á hljómdisk með verkunum. Í dag var einnig fluttur septett efir Hauk Tómasson á tónleikunum.

Víst er að Bretar hefðu viljað fá eitthvað af sólskininu og hitanum hjá okkur til London í dag þar sem milljónir manna komu saman við ána Thames og hylltu Elísabetu II. drottningu í tilefni af 60 ára krýningarafmæli hennar. Rigningin jókst eftir því sem leið á daginn og breyttist loks í úrhelli. Drottningin stóð þó sína pligt í skjóli og veifaði þeim sem sigldu á bátum fram hjá henni. Viktoría drottning sat við völd í 63 ár. Miðað við hve Elísabet ber aldur sinn vel er ekki ólíklegt að hún slái það met. Þá er Filippus drottingarmaður ótrúlega ern og teinréttur, hann verður 91 árs 10. júní. Stundum var erfitt að greina á milli þeirra á myndum Filippusar og Karls ríkisarfa sem er tæpum aldarfjórðungi yngri en faðir hans.

Þegar ég leit á þennan viðburð í sjónvarpi þótti mér best að slökkva á talinu. Hin uppskrúfaða mærð sjónvarpsþulanna er ekki í neinu samræmi við lítillætið sem skín af drottningunni og hefur tryggt henni vinsældir langt út fyrir Bretlandseyjar í öll þessi ár.