16.6.2012 16:00

Laugardagur 16. 06. 12

Sumir miðlar gangast upp í firringu og furðulegheitum. Merki um það mátti sjá á dv.is í dag. Þar stóð:

„Hallgrímur Helgason rithöfundur er einstaklega meðvitaður þegar kemur að pólitík. Hann var einn helsti andófsmaðurinn á valdatíma Davíðs Oddssonar og sætti ógnunum fyrir vikið eins og bláa höndin vísar til. Þá barði Hallgrímur bíl Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra, að utan þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst. Nú beinir skáldið spjótum sínum að Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. „Hann er orðinn rammruglaður af langri setu á Bessastað og illa haldinn af messíasarkomplexum,“ segir Hallgrímur á Facebook.“

Hallgrímur gaf tóninn í september 2002 um að lögreglurannsókn á Baugi væri reist á pólitískri andúð Davíðs Oddssonar á Baugsmönnum og hvatti til pólitískrar baráttu í þeirra þágu. Til að færa áróður sinn í þágu auðmanna í skáldlegan búning bjó hann til hugtakið „bláa höndin“.

Reynir Traustason, ritstjóri DV, tók upp þráðinn frá Hallgrími í Fréttablaðinu með því að birta í mars 2003 fundargerðir frá Baugi. Jón Ásgeir lét eins og hann vissi ekkert um hvernig Reynir hefði fengið þær í hendur. Jón Ásgeir var þó leynilegur eigandi Fréttablaðsins á þessum tíma. Reynir vildi með fréttum sínum styðja við bakið á Samfylkingunni fyrir þingkosningar vorið 2003.

Vorið 2004 börðust þeir Hallgrímur, Reynir og Ólafur Ragnar hlið við hlið í þágu Baugsmanna og fjölmiðlaveldis þeirra gegn fjölmiðlalögunum. Þegar þeim var hafnað jókst svigrúm Baugsmanna í viðskiptaheiminum til mikilla muna.

Hallgrímur hefur sagt að hann hafi lifað í blekkingu um eðli Baugsmiðlanna. Nú afneitar hann Ólafi Ragnari.