12.6.2012 20:45

Þriðjudagur 12. 06. 12

Í dag fór ég í borgina Carrera í Toscana sem er heimsfræg fyrir marmaravinnslu úr fjöllunum umhverfis hana. Sagan segir að Michelangelo hafi verið tíður gestur i borginni á sínum tíma og valið þar marmara í ódauðleg listaverk sín.

Verk úr marmara setja svip á miðborgina, í útjaðri hennar eru vinnslustöðvar fyrir marmarann, hvít marmarafjöllin gnæfa yfir borginni og efst í þeim má sjá stórvirkar vinnuvélar. Niður við höfnina er marmaranum skipað um borð í skip sem flytja hann um víða veröld.

Enn berst mér fræðsla um helgi 10. júní og þakka ég hana:

Helgidagurinn Corpus Christi heitir Dýridagur á íslensku, stórhátíð hins allrahelgasta líkama og blóðs Krists.

Jesús neytti hinstu kvöldmáltíðar við hlið lærisveina sinna á skírdag og breytti brauði og víni í líkama sinn og blóð sitt.  Skírdagur og föstudagurinn langi eru tengdir písl Jesú. Dýridagur er haldinn heilagur til að minnast hins mikla leyndardóms kvöldmáltíðarinnar, hann er fimmtudagurinn eftir Þrenningarhátíð. Á Íslandi er hann á sunnudegi eins og á Ítalíu.

Í kaþólskum löndum eru helgigöngur með altarissakramenti í monstrans, börn (stúlkur) strá blómum á götu fyrir framan Hostíu í monstrans og strákar hringja litlum bjöllum af miklum krafti. 

Hér í Toskana hafði blómum verið dreift á götur fyrir gönguna og má sjá myndir af blómabreiðum í  bæjum.

Í sumum löndum er farið í helgigöngur á hverjum degi í viku eftir Dýradag.