5.6.2012 21:10

Þriðjudagur 05. 06. 12

Veðrið á ströndinni hér á Ítalíu var eins og best verður á kosið í dag.

Mér bárust fréttir um að hæstiréttur hefði fallist á beiðni Jóns Magnússonar hrl., lögmanns míns, um áfrýjunarleyfi vegna héraðsdóms í meiðyrðamáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi gegn mér vegna ritvillu sem hefur verið leiðrétt með afsökun, héraðsdómari telur að leiðrétta villan eigi að kosta mig 900.000 krónur. Málið kemur líklega til kasta hæstaréttar næsta haust eða vetur.

Í Leifsstöð fletti ég nýju hefti af tímaritinu Mannlífi þar sem Jóhannes í Bónus skrýðir forsíðu vegna viðtals sem Einar Kárason rithöfundur tekur við hann. Einar ritaði á sínum tíma ævisögu Jóns Ólafssonar í Skífunni. Á tíma Baugsmálsins tók Einar upp hanskann fyrir Baugsmenn eins og má lesa í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi.

Í viðtali þeirra Einars segir Jóhannes að ég hafi sem dómsmálaráðherra birt „níð“ um hann og fjölskyldu hans og „uppnefnt“ þau. Hvort tveggja er alrangt. Vegna málaferla Jóns Ásgeirs út af leiðréttri ritvillu og héraðsdóms honum í vil hvarflar að mér að stefna þeim Einari og Jóhannesi auk útgefanda Mannlífs, krefjast ómerkingar og miskabóta. Fordæmi í héraðsdómi liggur fyrir um að engu skipti hvort leiðrétt sé eða beðist afsökunar, raunar ólíklegt að nokkur sem stendur að þessu viðtali í Mannlífi geri það.