26.6.2012 18:45

Þriðjudagur 26. 06. 12

Í morgun fór ég í qi gong í Grasagarðinum í Laugardal klukkan 11.10 en þar voru tæplega 60 manns í sumarblíðunni.  Æfingarnar í garðinum hófust 5. júní og eru tvisvar í viku, þriðjudaga og fimmtudaga. Margir nýir iðkendur bætast í hópinn við þessar æfingar utan dyra. Þær gefa þeim einnig mikið. Félagar í Aflinum leiða æfingarnar.

Ég skrifaði grein í Fréttablaðið í dag og svaraði Jóhanni Haukssyni, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, sem hann hafði tekið upp hanskann fyrir húsbónda sinn Jóhönnu Sigurðardóttur vegna brots hennar á jafnréttislögunum. Grein mína má lesa hér.