2.6.2012 18:15

Laugardagur 02. 06. 12

Viðtal mitt við Hall Hallsson um útgáfuteiti vegna bókar hans í Westminster-höll  í London er komið á netið og má sjá það hér.

Hér á landi er bloggari með Bilderberg-fundi á heilanum og telur þá upphaf alls ills í heiminum. Um þessa helgi er 60. Bilderberg-fundurinn haldinn, nú í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum. Íslenski bloggarinn huggar sig við að fundarstaðurinn sé svo nálægt umferðargötu að öskur mótmælenda trufli og þreyti fundarmenn.

Því miður situr enginn Íslendingur 60. afmælisfundinn og má segja að ár og dagur sé síðan að þar hafi verið íslenskur fundarmaður. Ég sat þessa fundi nokkrum sinnum og hef aldrei skilið hvers vegna mönnum er meira uppsigað við þá en aðra fundi sem boðað er til í því skyni að gefa fólki tækifæri til að kynnast og bera saman bækur sínar.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um sjö ástæður til að gera hlé á ESB-viðræðunum og hefja þær ekki að nýju fyrr en umboð hefur fengist til þess frá þjóðinni. Þessum málstað er að vaxa fylgi bæði innan veggja alþingis og utan eins og til dæmis grein Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í dag sýnir en til hennar er vitnað á Evrópuvaktinni.

Þorsteinn skrifar sig frá stefnu ríkisstjórnarinnar í ESB-viðræðunum þar sem hann er meðal þátttakenda. Hann áttar sig á að viðræðurnar eru í öngstræti vegna sundurlyndis innan ríkisstjórnarinnar sem forsetaframbjóðendur hafi nú afhjúpað að hans mati. Þá gerir hann sér grein fyrir því að ekki er unnt að átta sig á neinum tímasetningum vegna aðildarinnar.