15.6.2012 21:00

Föstudagur 15. 06. 12

Sólin skein áfram blíð í Toskana í dag. Þess verður ekki vart á götum lítilla bæja að fólk hafi áhyggjur af framtíð evrunnar þótt þær leggist þungt á ráðamenn í Róm. Fréttir herma að allir stjórnarherrar á evru-svæðinu séu í viðbragðsstöðu vegna þingkosninganna í Grikklandi á sunnudag. Hræðsluáróður er orðinn svo magnaður að þeir sem sakaðir eru um að ætla að splundra evru-svæðinu í Aþenu keppast við að votta evrunni hollustu sína. Angela Merkel sagði í gær að ekki þýddi að sýna neina meðalmennsku til bjargar evrunni. Þetta er sérkennileg yfirlýsing frá leiðtoga sem aldrei tekur nema hálft skref í einu – er það ekki einmitt meðalmennska.

Ég les í Fréttablaðinu ljóðaþing Kínversk-íslenska menningarsjóðsins, sem átti að halda í Kirkenes í Noregi í sumar,  hafi verið fellt niður af því að kínversku skáldin fengu ekki fararleyfi. Á sama tíma heimsækir forsætisráðherra Kína Ísland og Svíþjóð og Kínaforseti Danmörku. Um 2.000 kínverskir farandverkamenn bíða þess eins að komast til Grænlands til að hefja vinnslu á járngrýti fyrir 240 milljarða íslenskra króna.

Kínverjar óska eftir að fá fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og með leyfi kínverskra yfirvalda sækist Huang Nubo eftir að ná fótfestu á Íslandi. Í nýjasta hefti Þjóðmála er löng úttekt sem lýsir því hvernig sveitarstjórnarmenn á norð-austurhorninu hafa bitið á Kínaöngulinn. Þar birtist dæmisaga um það sem ég hef kallað „social engineering“ hér á síðunni.

Ólafur Þ. Stephensen segir í leiðara Fréttablaðsins í dag að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafi ekki haft döngun í sér til að styðja afstöðu norskra stjórnvalda gegn fastri áheyrnaraðild Kínverja að Norðurskautsráðinu heldur telji hann sig hafa hlutverki að gegna sem sáttasemjari milli Kína og Noregs. Hvernig væri að Össur sýndi fyrst mátt sinn með því að redda ljóðaþinginu í Kirkenes fyrir Huang Nubo og Hjörleif Sveinbjörnsson?

Í nýjasta þætti mínum á ÍNN  ræði ég um sókn Kína á norðurslóðir við Einar Benediktsson sendiherra sem efast ekki hvað fyrir kínverskum stjórnvöldum vakir og varar við því.